Flugið fer til Keflavíkur

Greinar

Flugvöllurinn í Vatnsmýri er eins mikil tímaskekkja og flugvöllur væri í Central Park í New York og í Hyde Park í London. Þjóðir með ábyrgðartilfinningu leyfa ekki flugvelli í borgarmiðju og enn síður leyfa þær aðflug beint yfir helztu valdastofnanir þjóðfélagsins.

Allir aðrir hagsmunir og samanburðarreikningar verða að víkja fyrir þeim hagsmunum, að flugvellir ógni ekki öryggi fólks að óþörfu og setji ekki gangverkið í landsstjórninni í hættu. Flugvöllurinn í Vatnsmýri fullnægir engum skilyrðum og kemur því ekki til álita.

Ráðamenn Reykjavíkur gerðu afdrifarík mistök, þegar þeir leyfðu samgönguráðuneytinu að endurnýja brautir flugvallarins í Vatnsmýri. Augljóst var, að hinar dýru framkvæmdir, sem kallaðar voru viðhald, mundu verða notaðar til að festa þennan fáránlega flugvöll í sessi.

Við verðum bara að vona, að ekki verði nein slys, unz málið leysist af sjálfu sér og innanlandsflugið flytzt til Keflavíkurflugvallar. Um það verður ekki tekin nein íslenzk ákvörðun, heldur ákveða bandarísk stjórnvöld einn góðan veðurdag, að þau tími ekki að reka hann.

Við vitum ekki, hvort það gerist á næsta ári eða eftir einn áratug. Við getum hins vegar sagt okkur sjálf, að utanríkismál Bandaríkjanna snúast ekki lengur um norðurslóðir, heldur um hættuna af hryðjuverkaríkjum í suðri. Flugherstöð á Miðnesheiði er orðin úrelt.

Þegar Bandaríkjamenn að lokum segja nóg komið, munu íslenzk stjórnvöld reka sig á, að rekstur Keflavíkurflugvallar í millilandaflugi verður svo dýr, að þau hafa ekki ráð á þeim lúxus að reka sérstakan flugvöll fyrir innanlandsflug, hvorki í Vatnsmýri né suður með sjó.

Þá verður innanlandsflugið formálalítið flutt suður á Keflavíkurflugvöll og reist þar flugstöð fyrir innanlandsflug. Það verður þá ódýrasti kosturinn í stöðunni og raunar sá eini, sem kemur til greina, enda verður þá væntanlega búið að tvöfalda Reykjanesbraut.

Marklausir eru útreikningar á vegum Flugmálastjórnar um kostnað við aukna slysahættu á Reykjanesbraut, enda hafa þeir ekki reiknað fulla slysahættu inn í dæmi flugvallarins í Vatnsmýri. Stórslysahætta á tvöfaldri Reykjanesbraut verður ekki sambærileg við Kvosina.

Hagsmunaaðilar Vatnsmýrar undir forustu Flugmálastjórnar hafa ýkt mjög kostnað og óþægindi af flutningi innanlandsflugs til Keflavíkur. Það mun ekki lengja ferðir innanlands um 102 mínútur, heldur 30 mínútur, ef miðað er við raunverulega miðju höfuðborgarsvæðisins.

Frá Smáranum í Kópavogi eru 35 mínútur til Keflavíkurflugvallar og 15 mínútur til flugvallarins í Vatnsmýri. Mismunurinn er aðeins 20 mínútur. Við það bætast 5 mínútur í lengdum akstri flugvéla á brautum og 5 mínútur í lengri flugtíma, sem hækkar miðaverð um 2%.

Þetta mun færa einhverja flutninga úr lofti yfir á vegi, en mun ekki nægja til að draga úr flugi til Akureyrar, Egilsstaða, Ísafjarðar og Vestmannaeyja. Með háum fargjöldum er Flugfélag Íslands einfært um fækkun ferða, enda dróst innanlandsflug saman um 6% í fyrra.

Skoðanakannanir hafa leitt í ljós, að flutningur innanlandsflugs til Keflavíkur mun ekki breyta ferðaháttum tveggja þriðju hluta þjóðarinnar. Og með aukinni notkun þyrlna í sjúkraflugi mun ekki lengur verða þörf á flugvelli í nágrenni hátæknisjúkrahúsa höfuðborgarinnar.

Fyrr eða síðar mun heimspólitíkin kasta Keflavíkurflugvelli í fang okkar. Þá tekur ákvörðunin sig sjálf og innanlandsflugið verður formálalítið flutt þangað.

Jónas Kristjánsson

DV