Indland

Veitingar

Indversk veitingahús
Fróðlegt og gaman er að bera saman indverska veitingastaði í upprunalandinu, í höfuðstöðvum indverskrar menningar á Vesturlöndum og á hjara veraldar. Veitingarýnin í dag fjallar um þrjá indverska veitingastaði, Gaylords í Delhi, Gophal’s í London og Austur-Indíafélagið í Reykjavík.

Gaylords í Delhi
Indverskir embættis- og kaupsýslumenn mæla sér mót á einu bezta veitingahúsi Indlands, Gaylords í miðju höfuðborgarinnar, gamal-vestrænt innréttuðu, með skrautrömmuðum speglum á veggjum og borðum á svölum yfir aðalsal. Þar má fá rétti frá ýmsum héruðum landsins og maturinn er hóflega kryddaður á indverskum mælivarða.

Troðnar slóðir
Matseðill Gaylords fór troðnar slóðir og matreiðslan reyndist átakalítil. Mér reyndist vel að panta hálfan kjúkling, smurðan jógúrt og karrí og bakaðan í tandoor-leirofni, baunarétt hússins; einnig grænmetisblönduð hrísgrjón að kasmírskum hætti; svo og jógúrtsoðið lambakjöt í rauðrófusafa; og loks kotasælu með spínati. (Gaylords, Regal Building, Connaught Circus, Delhi, sími 336 0717, miðjuverð 1.700 krónur á mann)

Gopal’s í London
Gott veitingahús af indverskum toga í London er stílhreint og snyrtilegt Gopal’s í lítilli hliðargötu út frá Frith Street í Soho, þétt skipað, þjónustuljúft og þægilegt, með indverskum málverkum og speglum á rjómalitum veggjum. Mörg betri indversk hús eru í London, en þetta er vel í sveit sett og traust að gæðum, enda reyndist það nokkru betra en Gaylords.

Tilþrif í eldhúsi
Matseðillinn var mun frumlegri á Gopal’s og matreiðslan ólíkt tilþrifameiri. Mér reyndist vel að panta ferskt afskeljað krabbakjöt, soðið í kókos og kryddi, borið fram á rauðkálsblaði; einnig kartöflustöppuköku fyllta baunum, lauk, chili-pipar og kóríander-blöðum; svo og karrísoðinn fisk með kókoshnetusósu; og loks sveppi soðna í mildu kryddi. (Gopal’s, 12 Bateman Street W1 London, sími 434 0840, miðjuverð 2.900 krónur á mann)

A-Indíafélagið í Reykjavík
Árum saman hefur snyrtilegt og þjónustulipurt Austur-Indíafélagið verið eina indverska veitingahúsið í Reykjavík, vandað að búnaði og indverskum skreytingum og upp á síðkastið betra en nokkru sinni fyrr. Í gæðum stenzt það fyllilega samanburð við Gaylords í Delhi, en fellur í skugga Gopal’s og ýmissa annarra indverskra staða í London, sem greinilega er orðin Mekka indverskrar matargerðar.

Kórrétt og vandað
Matseðillinn fór troðnar slóðir, en matreiðslan var vönduð. Mér reyndist vel að panta hálfan kjúkling, smurðan jógúrt og karrí og bakaðan í tandoor-leirofni, baunir í stökku brauði; einnig kóríander-kryddaðar rækjur; svo og kotasælubita í saffransósu með sterku koríanderbragði. (Austur-Indíafélagið, Hverfisgötu 56, Reykjavík, sími 552 1630, miðjuverð 4.200 krónur á mann)

Jónas Kristjánsson

DV