Lélegt menntakerfi

Greinar

Íslenzka menntakerfið stenzt því miður ekki samanburð við menntakerfi þeirra þjóða, sem við viljum bera okkur saman við. Samkvæmt tölum Efnahags- og framfarastofnunarinnar hafa aðeins 55% landsmanna lokið framhaldsmenntun, en 79% hjá öðrum aðildarlöndum.

Það er tæp vörn hjá menntaráðherra að segja skilgreiningu stofnunarinnar hafa orðið óhagstæðari, þegar hætt var að skilgreina gagnfræðamenntun sem framhaldsmenntun. Hann bætir þeirri tölu ofan á hinar íslenzku, meðan hinar erlendu eru áfram nettótölur.

Við leggjum líka minna af mörkum til skólamála en önnur lönd Efnahags- og framfarastofnunarinnar. Menntaráðherra er einnig á því sviði með sérstaka útreikninga fyrir sig, sem sýna, að 29% íslenzkra háskólanema stundi nám sitt erlendis á þarlendan kostnað.

Menntaráðherra gagnast í hvorugu reikningsdæminu að búa til sérstakar brúttótölur fyrir Ísland og bera þær saman við nettótölur annarra ríkja í Efnahags- og framfarastofnuninni. Hann verður að sæta því, að tölur um Ísland séu sambærilegar tölum um önnur lönd.

Einnig er léleg vörn í að benda á, að íslenzkir námsmenn bæti sér upp takmarkað og ófullnægjandi framboð háskólakennslu á Íslandi með því að flýja á náðir erlendra háskóla. Þvert á móti ber menntaráðherra að líta á það sem hvatningu til að bæta framboðið á Íslandi.

Háskólanám í útlöndum víkkar sjóndeildarhringinn og flytur hingað erlenda strauma. Það er gott fyrir nemandann og fyrir þjóðfélagið, sem nýtur menntunar hans. Slíkur landflótti á hins vegar ekki að leiða til, að ráðherra sætti sig við takmarkað framboð á menntun.

Miklu nær væri fyrir ráðherrann að taka saman höndum við skólamenn um að bæta stöðuna hér á landi, svo að ekki stundi færri Íslendingar framhaldsmenntun en bezt gerist erlendis og að framlög til framhaldsnáms séu ekki lægri hér á landi en bezt gerist erlendis.

Ennfremur væri nær fyrir ráðherrann að taka saman höndum við skólamenn um að bæta nám á öllum stigum hér á landi, svo að Íslendingar fari ekki lengur halloka í fjölþjóðlegum mælingum á þekkingu. Samanburðartölur frá útlöndum á að taka sem hvatningu til dáða.

Ekki er hins vegar líkleg til árangurs hin gamalkunna pólitíska leið þrefs, sem menntaráðherra hefur valið, að fara í fýlu og reyna á mjóum þvengjum að draga samanburðinn í efa. Þannig tala pólitíkusar, en ekki stjórnvitringar, sem leiða þjóðir götuna fram eftir vegi.

Fleira er athugavert við stöðu íslenzkra skólamála en framlög opinberra aðila. Samtök kennara hafa verið of mikil launafélög og of lítil fagfélög. Þau hafa ekki verið nógu vel opin fyrir nýjungum frá löndum, sem hafa staðið sig vel í fjölþjóðlegum samanburði menntunar.

Ekki er eingöngu við stjórnvöld, ríkisstjórnina eða ráðherrann að sakast, þótt okkur miði hægar en mörgum öðrum. Kennarar og foreldrar þurfa líka að líta í eigin barm. En það bætir ekki stöðuna, ef ráðherrann lítur ekki í eigin barm, heldur fer í fýlu, ef tölur eru óhagstæðar.

Arðsömustu atvinnuvegir 21. aldar munu meira eða minna byggjast á víðtækri og almennri langskólamenntun. Íslendingar mega ekki liggja á fyrri lárviðarsveigum og sætta sig við að verða annars flokks þjóð á væntanlegum tímum þekkingariðnaðar og -þjónustu.

Þjóð, sem telur sig ekki hafa efni á eins langri skólagöngu og eins miklum skólakostnaði og auðþjóðir heims, verður ekki ein af auðþjóðum 21. aldar.

Jónas Kristjánsson

DV