Fíflaðar stofnanir

Greinar

Þekktum snillingi hefur að undanförnu tekizt að vefja þremur ríkisstofnunum um fingur sér til að fara á svig við lög og reglur í fjáraflaskyni. Dómsmálaráðuneytið, lögreglustjórinn í Reykjavík og Landssíminn hafa látið misnota sig til að hafa fé af fólki á nýstárlegan hátt.

Rammi ævintýrisins er þekktur um allan heim. Stofnað er góðgerðafyrirtæki, sem beitt er til að mýkja lund ráðamanna opinberra stofnana, sem ekki eru þekktir að undanlátssemi við almenna borgara. Með setuverkfalli í ráðuneyti fékk fjáraflamaðurinn vilja sínum framgengt.

Undarlegastur er þáttur Landssímans í málinu. Komið hefur í ljós, að engin takmörk eru fyrir, hversu mikið hann tekur að sér að rukka fyrir eitt símtal. Þúsundkallinn, sem ríkisstofnun þessi rukkar fyrir góðgerðafélag snillingsins, er ekki einu sinni stofnunarmet.

Hvað gerir Landssíminn, ef einhver vill láta rukka tíuþúsund krónur fyrir símtalið? Hundrað þúsund krónur eða milljón? Ljóst er af fréttum, að stofnunin er engan vegin búin undir að taka á siðferðislegum þáttum málsins. Hún stofnar fjárhag viðskiptamanna sinna í hættu.

Aðferðin felst í að senda SMS-boð með fjöldasendingu til aragrúa gemsaeigenda. Þeir heyra píp í gemsanum og svara því, án þess að átta sig á, að þeir eru að taka á sig þúsund króna útgjöld. Í skilaboðunum var raunar sérstaklega og ranglega tekið fram, að þetta væri “frítt”.

Auðvitað ber Landssímanum að endurgreiða viðskiptamönnum útgjöld vegna þessa. Stofnunin getur ekki tekið að sér að rukka sem símtöl upphæðir, sem eru margfaldar á við kostnað af einu símtali. Stofnunin getur ekki tekið að sér að rukka hærri einingar en skiptimynt.

Raunar er Landssíminn beinn aðili að fjáröfluninni, því að hann tekur prósentur af tekjunum. Það er leyndarmál, hversu há þessi prósenta er, en hún hefur greinilega ruglað ráðamenn stofnunarinnar svo í ríminu, að þeir hafa látið siðferðilegar spurningar lönd og leið.

Ráðamenn Landssímans þykjast ekki bera ábyrgð á þessu. Ráðamenn lögreglustjóraembættisins þykjast ekki bera ábyrgð á þessu. Ráðamenn dómsmálaráðuneytisins þykjast ekki bera ábyrgð á þessu. Ljóst má þó vera, að þeir bera allir in solidum ábyrgð á vitleysunni.

Allir þessir aðilar hafa gefið fjáraflamanninum heimildir, sem hann hefur síðan teygt og togað í sína þágu, meðal annars með því að búa til skemmtilegt happdrætti, þar sem menn fá í vinning að borða á veitingahúsum, án þess að ráðamenn veitingahúsanna kannist við slíkt.

Talsmenn veitingahúsanna segjast hafa samþykkt að gefa hver um sig eina máltíð í vinning í happdrættinu. Snillingurinn hafi hins vegar gefið endalaust út vinninga, svo að meintir vinningshafar streymdu til staðanna í von um frían mat, en urðu frá að hverfa.

Það er skylda embætta á borð við lögreglustjóra og dómsmálaráðuneytis að hafa langt minni. Embættismönnum á af gömlum fréttum að vera kunnugt um skrautlegan fjármálaferil snillingsins í fyrra athafnalífi hans hér á landi, áður en hann gerði garðinn frægan erlendis.

Þáttur embættanna í máli þessu er bjálfans og þáttur Landssímans er meðreiðarsveinsins. Skástur er þáttur fjáraflamannsins, sem hefur sér til yfirbóta að hafa glatt áhorfendur með því að sýna fram á, að enn þann dag í dag er hægt að selja norðurljósin einu sinni enn.

Hinir seku í máli þessu eru fyrst og fremst opinberu aðilarnir, sem hafa reynzt furðulega tregir og seinir til að gæta hagsmuna almennings og viðskiptamanna sinna.

Jónas Kristjánsson

DV