Glæsileg Skólabrú
Skólabrú er með glæsilegustu veitingastöðum landsins, í virðulegu húsi á einu bezta horni bæjarins aftan við Dómkirkjuna. Þar tindrar kristall við kertaljós og drifhvítt lín. Smóking-klæddir þjónar með skólagöngu að baki svipta hjálmum af aðalréttum fyrir alla borðgesti í senn. Hefðbundnar leikreglur eru í heiðri hafðar á einu af dýrustu veitingahúsum landsins, 5.100 krónur þríréttað á mann.
Gölluð Skólabrú
Gamalkunnir útlitsgallar skera enn í augu. Forstofurnar eru enn áberandi rauðar, þótt önnur húsakynni staðarins séu í mildum litum, sem hæfa aldri hússins. Uppi í risi er enn misræmi milli málaðrar veggklæðningar gamla tímans og olíuborinnar sumarhúsaklæðningar nýja tímans. Vondur frágangur er á skilum þessara tveggja tímabila í klæðningasögunni.
Reyklaus Skólabrú
Reykingar eiga verr við í veitingasölum en á öðrum opinberum stöðum. Þær valda ekki aðeins náunganum óþægindum, heldur draga verulega úr næmi hans á bragð og ilm matar og drykkjar. Því ættu matstaðir að virða betur en aðrir lög um reykingar. Skólabrú er ein fárra, sem það gera. Á matseðli hennar er reykingafólk vinsamlega beðið um að reykja ekki í matsalnum, heldur nota reykstofuna uppi í risi. Fólk líka beðið um að slökkva á farsíma.
Hefðbundin Skólabrú
Matreiðslan er hefðbundin og traust, en ekki frumleg, byggir of mikið á stöðluðum einingum að hætti ódýrari staða. Kartöflukökusneiðar, ferskur smáspergill og djúpsteiktir grænmetisþræðir fylgdu öllum aðalréttunum, sem prófaðir voru. Matseðillinn er fastur og breytist aðeins ársfjórðungslega. Hann býður sitt lítið af hverju og er engan veginn eins spennandi og seðlar toppstaða á borð við Holt og Sommelier. Leiðigjarnt væri að borða vikulega á Skólabrú.
Mistæk Skólabrú
Ódýrt vín mánaðarins var óvenjulega þrunginn Merlot frá Chile. Smáar og volgar kjallarabollur voru góðar. Eldunartímar á lambi og nauti voru nákvæmir. Kaffi var gott, með heimalöguðu konfekti. Djúpsteiktir grænmetisþræðir voru hins vegar með brunabragði; heitreykt bleikja var of mikið reykt; og sveppakrem með nautasteikinni var ofhlaðið blóðbergi, kryddi sem óspart er notað á Skólabrú.
Óbreytt Skólabrú
Fyrir níu árum var veitingahús fyrst stofnað í þessu sögufræga augnlæknishúsi. Það stóð ekki undir væntingum, sem tengdust einum allra bezta matreiðslumanni landsins á þeim tíma. Skólabrú fór dræmt af stað og hefur síðan skipt oftar en einu sinni um aðstandendur. Einkenni matreiðslunnar hafa samt haldizt í sviptingunum áranna, virðulegar og vandaðar uppskriftir, sem sjaldan er skipt um.
Skólabrú, Pósthússtræti 17,
sími 562 4455, http://www.skolabru.is
Jónas Kristjánsson
DV