Í dulargervi frétta

Greinar

Hagsmunaaðilar hafa í vaxandi mæli reynt að bæta stöðu málstaðarins með því að láta Gallup spyrja hlutdrægra spurninga með hlöðnum aukasetningum í stílnum: Ertu samþykkur, ef þetta og hitt er svona? Þannig hefur mælzt stuðningur við stóriðju á Austurlandi.

Að sjálfsögðu er þessi aðferð í vopnabúri deCODE Genetics, sem lét Gallup nýlega spyrja lækna, hvort þeir vildu gagnagrunninn fræga, ef hann væri í samræmi við fjölþjóðlegar reglur. Síðan blés fyrirtækið til fréttamannafundar, þar sem stjórn Læknafélagsins var gagnrýnd.

Svo óheppilega vildi til, að Gallup hafði togað spurninguna svo mikið til, að stjórn Læknafélagsins gat túlkað niðurstöðuna sér í hag, þar sem hún hefði raunar alltaf verið að berjast fyrir, að farið væri að fjölþjóðlegum reglum. Staðan í deilu málsaðila var því áfram í patti.

Á fundinum var niðurstaðan túlkuð sem vantraust lækna á stjórn félags síns. Blaðurfulltrúi deCODE Genetics gætti þess vandlega að segja ekki frá, að önnur keypt spurning hafði fjallað um það atriði, en svörin því miður sýnt meirihlutastuðning lækna við stjórn félagsins.

Fjölmiðlar höfðu étið meira eða minna úr lófa deCODE Genetics og urðu langleitir, þegar falda spurningin og svörin við henni komu í ljós. Þetta er gott dæmi um vandamálin, sem blaðurfulltrúar og fyrirtæki í almannatengslum eru farin að skapa fjölmiðlum hér á landi.

Tilkynningar, sem berast fjölmiðlum, eru meira eða minna smíðaðar af ímyndarfræðingum og öðrum sérfræðingum í hagræðingu staðreynda. Fjölmiðlar hafa misjafna burði og því miður líka misjafnan vilja til að standast áhlaupið og láta þetta allt of oft yfir sig ganga.

Mörgum finnst þægilegast að vera til friðs og láta óþægileg mál eiga sig. Þannig breytast fjölmiðlar í krana, sem hagsmunaaðilar skrúfa frá og fyrir að vild. Sumir þeirra tryllast meira að segja, ef þeir fá ekki að stjórna millifyrirsögnum og hönnun efnisins á síðum.

Ekki bætir úr skák, að hin hefðbundna fréttamennska af gagnrýnum toga hefur verið á undanhaldi hér á landi á allra síðustu árum. Fjölmiðlar eru sagðir velta sér upp úr soranum, ef þeir fjalla mikið um hin fjölmörgu skítamál í þjóðfélaginu. Þeir óhreinkast af umræðuefninu.

Engu máli skiptir, þótt hvert orð sé rétt í fréttum af ýmsum sora í þjóðfélaginu. Sú staðreynd, að fjölmiðill skuli yfirleitt leggja slíkan fréttaflutning fyrir sig, er notuð til að kasta rýrð á hann og kalla hann sorprit. Hefðbundin blaðamennska vestræn sætir ámæli.

Hluti markaðarins vill raunar ekki vita af neinum óþægilegum fréttum. Se&Hør-fólkið hefur meiri áhuga á fínu kjólunum, sætu stúlkunum og flottu pörunum. Þar á ofan heimta menn, að sjónvarpið skemmti þeim og frói. Sú krafa nær inn í fréttir og fréttatengt efni ljósvakans.

Komin er til skjalanna ný sjónvarpsstöð, þar sem fréttir hafa glatað öllu upplýsingagildi og eru orðnar að hreinu skemmtiefni. Svokallaðir fréttamenn stöðvarinnar kunna ekkert til verka og vilja ekki kunna, en eru kynntir fyrir markaðinum sem eins konar ímyndað frægðarfólk.

Stjórnmálamenn eru látnir leika trúða í sjónvarpsþáttum, syngja og spila og fá að launum svokölluð drottningarviðtöl við sig í þáttum sem stjórnað er af gleðiböngsum nýja stílsins. Allt er þetta í samræmi við þá kröfu áhorfenda, að ekkert lát verði á skemmtuninni.

Þetta eitrar út frá sér til gömlu sjónvarpsstöðvanna, sem vilja ekki láta nýju stöðina tína af sér kúnna. Fréttir og skemmtun fara því líka þar að renna út í eitt.

Jónas Kristjánsson

DV