Ólympískt alræðisríki

Greinar

Öflugustu alræðisherrar tuttugustu aldar töldu allir ólympíuleika vera pólitískt tæki til að treysta stöðu sína. Þeir beittu öllum brögðum til að koma sínu fólki á verðlaunapalla og lögðu mikla áherzlu á að fá að halda leikana til að geta gefið glansmynd af alræðisríkinu.

Þannig urðu ólympíuleikarnir 1936 í Berlín öflugt vopn í höndum Hitlers með því að veikja vitund umheimsins um raunverulegar ráðagerðir hans. Þannig notaði Austur-Þýzkaland sáluga ólympíuleika til að sýna fram á, að alræðisríki væri bezti jarðvegur afreksfólks í íþróttum.

Kínverska stjórnin hefur fetað í fótspor Austur-Þýzkalands í notkun ólöglegra og skaðlegra efna til að bæta árangur í íþróttum. Þar á ofan hefur lengi verið draumur hennar að fá að halda ólympíuleika til að auglýsa stjórnkerfið fyrir landsmönnum og útlendingum.

Mannréttindabrot kínverskra stjórnvalda komu í veg fyrir að þau kæmu þessum vilja sínum fram árið 2000, þegar Sydney var tekin fram yfir Peking. Nú sækja þau enn fram með kröfu um að fá að halda ólympíuleikana árið 2008 og njóta því miður töluverðs stuðnings.

Eftirlitsnefnd alþjóðlegu ólympíunefndarinnar hefur að undanförnu verið að skoða aðstæður í Peking. Í tilefni komunnar voru stjórnarandstæðingar og trúarlegir mótmælendur settir án dóms og laga í stofufangelsi, svo að þeir hefðu ekki tækifæri til að ræða málstað sinn.

Nokkrir voru þar á ofan sendir í tveggja ára vinnubúðir fyrir þann glæp að skrifa undir ávarp til alþjóðlegu ólympíunefndarinnar um að beita áhrifum sínum til að fá stjórnarandstæðinga leysta úr haldi. Koma nefndarinnar varð þannig beinlínis tilefni nýrra fangelsana.

Enn fremur voru vetrarstráin á Torgi hins himneska friðar og ýmsum öðrum stöðum í borginni úðuð með grænum lit og plantað var gerviblómum til að gefa Peking notalegan svip, enda klöppuðu eftirlitsmennirnir saman lófunum, þegar þeir sáu grænu vetrardýrðina.

Því miður er alþjóðlega ólympíunefndin meira eða minna veruleikafirrt, enda hefur hún oft orðið sér til skammar með því að setja kíkinn fyrir blinda augað, þegar hún stendur andspænis lyfjanotkun íþróttafólks eða alræðisstjórnum, sem misnota ólympíuhugsjónina.

Mannréttindaforstjóri Sameinuðu þjóðanna, Mary Robinson, hvatti nýlega alræðisstjórnina í Peking til að hætta að ofsækja stjórnarandstæðinga og trúarlega mótmælendur með því að setja þá á geðveikrahæli eða í vinnuþrælkunarbúðir í stíl Sovétríkjanna sálugu.

Um 5000 félagar í trúarhreyfingunni Falun Gong einni sæta um þessar mundir vinnuþrælkun og heilaþvotti í slíkum búðum. Kaþólikkar hafa líka verið ofsóttir á þennan hátt, svo og allir þeir, sem senda bænarskrár um, að farið verði að virða mannréttindi í Kína.

Ótalið er þjóðar- og menningarmorð kínversku alræðisstjórnarinnar í Tíbet, þar sem fólk fær hvorki að stunda trú sína í friði, né að auka kyn sitt, heldur eru fluttir inn landnemar frá Kína til að ná meirihluta í landinu. Jafnframt er menningarsögulegum mannvirkjum eytt.

Því miður hafði eftirlitsnefnd alþjóðlegu ólympíunefndarinnar ekkert við málin í Peking annað að athuga en að óviðkunnanlegt væri vegna blóði drifinnar forsögu að halda blakkeppni ólympíuleikanna á sjálfu Torgi hins himneska friðar eins og alræðisstjórnin hafði ákveðið.

Því miður vill alþjóðlega ólympíunefndin ekki skilja, að ólympíuleikarnir 2008 verða tæki hættulegasta alræðisríkis heims til að slá ryki í augum umheimsins.

Jónas Kristjánsson

DV