Á einum fjölmiðli þótti í vetur öruggara að segja, að nafnlaus viðskiptafélagi myrts manns sæti í varðhaldi vegna gruns um morðið. Hér í blaðinu var hins vegar birt nafn hins grunaða. Það var gert samkvæmt gömlum, vestrænum hefðum um nákvæmni í fréttamennsku.
Ósvarað er spurningunni um, hvort valdi saklausu fólki meiri erfiðleikum, birting á nafni manns í varðhaldi eða þrenging skilgreiningarinnar á hinum grunaða niður í fáa menn. Hitt er ljóst, að nafnbirting, rétt eins og myndbirting, veifar rauðri dulu framan í sumt fólk.
DV hefur lengi farið eftir hefðbundnum venjum góðra dagblaða á Vesturlöndum í þessum efnum, en skilgreinir þær fremur þröngt vegna fámennis á Íslandi. Sumir fjölmiðlar kjósa að fara sér enn hægar í sakirnar, en skapa um leið aukið svigrúm fyrir rangar sögusagnir.
Því nákvæmari sem fréttir fjölmiðla eru, þeim mun minna svigrúm er fyrir sögusagnir og myndfalsanir, sem fjölfaldast með ógnarhraða á tímum tölvupósts. Þetta á einkum við um svokallaðar “vondar” fréttir af glæpum, spillingu og öðrum skuggahliðum samfélagsins.
Sumt fólk er beinlínis andvígt vondum fréttum. Það vill ekki láta raska ró sinni og vill ekki vita af vandræðum úti í þjóðfélaginu. Í þessu felst veruleikafirring, sem í mörgum tilvikum er í bland við hræsni á borð við þá, sem felst í að tala um “viðskiptafélaga” hins myrta.
Þegar DV nefnir nafn viðskiptafélagans eða birtir mynd af slysi á Knippelsbro, fær blaðið jafnan tvö eða þrjú andmælabréf í tölvupósti og annað eins af símtölum. Nöfn og myndir eru eins konar hnappar, er vekja upp hóp þeirra, sem haldnir eru veruleikafirrtri hræsni.
Blaðið fær hins vegar engan tölvupóst og engar upphringingar, þá sjaldan sem því verður raunverulega á í messunni. Enginn rís upp til andmæla, ef blaðið varar sig ekki á blaðurfulltrúum eða ímyndarfræðingum úti í bæ, sem eru að reyna að misnota fjölmiðlana.
Gildismat DV sem fjölmiðils felst í að reyna að segja réttar fréttir, en ekki að verða við óskum veruleikafirrtra hræsnara. Mikill tími ritstjórnar fer í að verjast lúmsku innihaldi í upplýsingum frá hálærðum sveitum sérfræðinga, sem vilja blekkja fólk í hagsmunaskyni.
Menn eru með ímyndarfréttum að reyna að hafa fé af fólki á hlutabréfamarkaði eða gæta annarra sérhagsmuna í stríði fyrirtækja, stofnana og samtaka. Menn eru að reyna að fá fólk til að kaupa margvíslegan óþarfa sér til fjárhagsskaða eða til að styðja vafasaman málstað.
Til þess að fólk geti lifað í flóknum heimi nútímans þarf það að vita um raunveruleikann í kringum sig. Í nútímanum dugir ekki að stinga höfðinu niður í sandinn og ímynda sér, að allt sé slétt og fellt. Vondar fréttir eiga sama erindi og góðar fréttir inn í heimsmynd fólks.
Hin raunverulegu vandamál fjölmiðla og notenda þeirra felast ekki í mismunandi reglum um nafnbirtingu eða myndbirtingu og enn síður í mismunandi stærðum fyrirsagna. Hin raunverulegu vandamál felast í skorti á vilja og getu til að gefa skýra mynd af þjóðfélaginu.
Sumir hirða ekki um að afla nafna og mynda í viðkvæmum málum, stundum af því að þeir nenna því ekki og stundum til að spara sér óþægindi af völdum veruleikafirrtra hræsnara. Þessir sömu fjölmiðlungar hirða ekki um að verjast fyrir meisturum blekkinganna.
Á DV erum við stolt af því að hafa nýlega veitt lesendum góða innsýn í hugarheim róttækra þjóðernissinna og höfnum gagnrýni veruleikafirrtra hræsnara.
Jónas Kristjánsson
DV