Lofgerð um Lækjarbrekku
Austurrískur góðvinur minn velktist ekki í vafa. “Lækjarbrekka er bezti veitingastaður í heimi,” sagði hann og dásamaði rækjurnar, sem samkvæmt lýsingu hans voru í rauninni grillaður humar. Ég get ekki skrifað undir allt lofið, en viðurkenni, að rómantíska veitingahúsið í Bakarabrekkunni hefur batnað á allra síðustu árum og nýtur þess greinilega í viðskiptum.
Sérhæfing í villibráð
Eldamennskan, sem áður rambaði út og suður í Lækjarbrekku, er orðin traust og sérhæfir sig í humar og villibráð. Humarinn er að vísu ekki eins jafngóður og í Humarhúsinu, en villibráðin er ein hin bezta á landinu. Hér er hægt að fá í einum málsverði reykta súlu, grafinn skarf, andakæfu, hreindýrasteik, villigæsarsneiðar og lundabringu, sem er allt hið frambærilegasta og kostar 4.580 krónur með eftirrétti.
Humar beztur grillaður
Gaman er að prófa grillaðan, innbakaðan og djúpsteiktan humar saman í einum aðalrétti á Lækjarbrekku, þótt ekki sé nema til að staðfesta enn einu sinni, að snögg grillun er langbezta matreiðsluaðferðin á bragðmildum humar og að milt kryddað og bráðið smjör er bezta viðbitið með honum.
Nokkrir mínusar
Hægt er að láta glerplötur borðanna fara í taugar sér á Lækjarbrekku; lélegt húsvín frá Frakklandi; blá vatnsglös; lapþunnt kaffi; skrítna eplaköku; og smekklausar eftirprentanir á veggjum. Ég saknaði líka Borgundarhólmsklukkunnar, sem áður sló stundarfjórðunginn virðulega. En allt er þetta bætt með fyrirtaks framgöngu kvenþjóna, sem láta sér annt um gesti.
4.900 króna kvöldmáltíð
Lækjarbrekka hefur ekki bara fikrað sig upp í gæðum, heldur líka í verði. Hún er komin upp í næstdýrasta flokk veitingahúsa, þar sem meðal annars eru betri staðir á borð við Sommelier og Humarhúsið, en einnig lakari staðir á borð við Skólabrú og Jónatan. Gera má ráð fyrir, að þriggja rétta máltíð með kaffi kosti 4.900 krónur, áður en kemur að víninu.
(Lækjarbrekka, Bankastræti 2, 551 4430)
Verðlag hækkar ört
Verðlag veitingahúsa hefur hækkað heldur meira undanfarin misseri en meðalverðlag í landinu, þótt sumar verðskrár hafi staðið í stað. Sem dæmi um hækkanir má nefna, að Lækjarbrekka, Perlan, Primavera og Jónatan hafa hækkað um 15% á tveimur árum, en Ítalía Madonna og Askur hafa staðið í stað. Meginlínan virðist vera sú, að dýru staðirnir verða dýrari og verðbil veitingahúsanna fer vaxandi. Það er út af fyrir sig eðlileg þróun, því að verðbil hefur verið of lítið hér á landi, en getur leitt til minni aðsóknar á dýrari staðina og meiri grisjunar þeirra.
Jónas Kristjánsson
DV