Bönnuð yfirvinna

Greinar

Yfirvinnubannið, sem sett var á lögreglumenn fíkniefnadeildar síðastliðið haust, fór ekki fram hjá blaðamönnum DV, sem þurftu að ná tali af deildinni vegna fíkniefnafrétta. Fíkniefnadeildin var hreinlega hætt að vera í símasambandi eftir klukkan fimm á daginn.

Hingað til hefur ekki verið neinn íslenzkufræðilegur ágreiningur um orðið yfirvinnubann. Það þýðir, að starfsmenn þurfa að fá samþykki yfirmanns fyrir yfirvinnu áður en hún er unnin. Þetta er algengt stjórntæki fyrirtækja, þegar fjárhagsáætlun er farin úr skorðum.

Hér á ritstjórn DV hefur eins og víðar komið til tímabundins yfirvinnubanns. Þá hefur það verið kallað yfirvinnubann og felst einmitt í að menn þurftu að fá samþykki yfirmanns fyrir yfirvinnu áður en hún var unnin. Orðið yfirvinnubann hefur aldrei misskilizt.

Dómsmálaráðherra og lögreglustjórinn í Reykjavík eru ekki nógu miklir íslenzkufræðingar til að geta breytt merkingu orðsins yfirvinnubann. Þess vegna fara þeir með rangt mál, þegar þeir halda fram, að yfirvinnubann hafi ekki verið sett á fíkniefnalögregluna í haust.

Í framkvæmd fólst yfirvinnubann fíkniefnalögreglunnar í, að greidd yfirvinna deildarinnar fór úr 3118 klukkustundum í júlí í 405 klukkustundir í september. Af síðari tölunni voru um 100 tímar fastir vegna vaktakerfis lögreglumanna. Þetta var hastarlegt yfirvinnubann.

Við höfum skýrt dæmi um þetta. Lögreglumaður fíkniefnadeildar sagði yfirmanni sínum frá rökstuddum grun um, að glæpur yrði framinn um næstu helgi. Yfirmaðurinn neitaði um leyfi til yfirvinnu, þar sem peningarnir væru upp urnir og búið væri að setja yfirvinnubann.

Ekkert er ljótt við að setja yfirvinnubann til að treysta fjárhagsgrundvöll fyrirtækja og stofnana. Að vísu er það spurning um forgangsatriði í ríkiskerfinu, hvort sparnaður er sérstaklega látinn koma niður á fíkniefnalöggæzlu. En menn eiga þá að viðurkenna forgangsröðina.

Allt frá því að núverandi utanríkisráðherra lofaði í síðustu kosningabaráttu að verja milljörðum til fíkniefnabaráttu, hefur verið ljóst, að þessi málaflokkur væri einstaklega aftarlega í forgangsröð ríkisstjórnarinnar. Yfirvinnubannið var eðlilegt dæmi um forgangröðina.

Ríkisstjórn og stjórnarandstaða geta rifizt um, hvar í forgangsröðinni fíkniefnalöggæzla eigi að vera og hvaða öðrum póstum ríkiskerfisins megi fórna í staðinn, ef hún er færð upp virðingarstigann. Ríkisstjórnin getur hins vegar ekki afneitað núverandi forgangsröð.

Enn síður getur dómsmálaráðherra fullyrt með útúrsnúningum, að ekki hafi verið sett yfirvinnubann á fíkniefnalögreglu. Það segir sína sögu, að hún lét kýla yfirvinnu niður um níu tíundu hluta og að fíkniefnalögreglan varð sambandslaus í síma eftir klukkan fimm.

Loks er fáránlegt það veruleikafirrta tiltæki dómsmálaráðherra að vera sífellt að boða til átaks á ýmsum sviðum löggæzlu, þar á meðal í fíkniefnalöggæzlu, og senda þess á milli bréf til allra lögreglustjóra um að draga saman seglin, einkum með niðurskurði á yfirvinnu.

Annaðhvort er dómsmálaráðherra nokkurn veginn sambandslaus við veruleikann eða þá að hún er óvenjulega ósvífin sem ráðherra og er þá mikið sagt. Hugmynd hennar um pappalöggur með ótakmarkaðri yfirvinnu bendir til, að fyrri skýringin sé öllu nærtækari.

Kjósendur mega svo minnast yfirvinnubannsins, þegar ráðamenn fara eftir rúmlega tvö ár að lofa enn og aftur stóraukinni áherzlu á varnir gegn fíkniefnum.

Jónas Kristjánsson

DV