Glæpir gegn fortíðinni

Greinar

Talebanar í Afganistan eru bandarískur uppvakningur frá lokum kalda stríðsins, þegar frelsisbarátta Afgana gegn Sovétríkjunum sálugu var fjármögnuð að vestan. Talebanar voru grimmustu stríðsmennirnir og fengu miklu meiri fjárstuðning en aðrir hópar baráttunnar.

Þetta var gott dæmi um einnota utanríkisstefnu, þar sem eingöngu skipti máli að ná árangri á líðandi stund. Ekkert var hugsað um, hvað gera ætti við skrímslið, þegar Rússarnir væru farnir. Enda hefur uppvakningurinn reynzt valda Afgönum og öðrum ógn og skelfingu.

Nýjasta birtingarmynd trúarofstækis Talebana er að eyðileggja menningarsöguleg verðmæti, þar á meðal risavöxnu Búdda-stytturnar í Bamian. Ofstækið er hliðstætt öðru framferði þessa hóps, sem lýsir sér einnig í takmarkalitlu hatri á framförum, sem koma úr vestri.

Allir aðilar hafa sameinazt um að fordæma Talebana fyrir að spilla menningarsögu Afgana, þar á meðal öll þekktustu ríki Islams, enda er ofstækið nýtt í sögu þeirra trúarbragða. Grískar og rómverskar og aðrar minjar hafa verið látnar í friði í heimi Islams öldum saman.

Tyrkir hafa öldum saman horft á Soffíukirkju í Miklagarði. Persar hafa öldum saman horft á Persepolis við Shiraz. Sýrlendingar hafa öldum saman horft á Palmyru. Þannig hafa Afganar öldum saman horft á gamlar minjar, þótt þær séu ættaðar frá öðrum trúarbrögðum.

Talebanar eru því miður ekki einir um trúarofstækið. Stórvirkust hafa verið kínversk stjórnvöld, sem hafa látið brjóta Búdda-hof í Tíbet hundruðum saman í markvissri tilraun til að eyða menningarsögu landsins og eyða þannig vegprestum í þjóðernisbaráttu landsmanna.

Indversk stjórnvöld stöðvuðu ekki ofstækismenn úr röðum Hindúa, þegar þeir eyðilögðu 16. aldar moskuna í Ayodhya árið 1992, enda voru þeir stuðningsmenn ríkisstjórnarflokksins Bharatiya. Þau hirða ekki um, þegar eldar eru bornir að kristnum kirkjum í landinu.

Serbar tóku upp á því í Bosníustríðinu að gera atlögu að menningarsögulegum minjum Islams og kaþólskrar trúar. Þeir reyndu að sprengja upp hina einstæðu borg Dubrovnik og sprengdu margar moskur í landinu. Króatar og Bosníumenn fóru að svara í sömu mynt.

Serbar brenndu meira að segja bókasöfn til að koma í veg fyrir, að andstæðingar þeirra gætu leitað til fortíðarinnar um heim bókanna. Þeir fetuðu í þessu sem ýmsu öðru í fótspor Hitlers, sem lét brenna bækur opinberlega á torgum úti, enda mun hneisa Serba lengi standa.

Villimenn af tagi Talebana, Kínverja, Indverja og Serba voru ekki fyrirferðarmiklir í veraldarsögunni fyrr en undir miðja tuttugustu öld. Krossfarar fyrri tíma réðust ekki beinlínis að menningarsögunni, þótt þeir fremdu ótal önnur illvirki. Árásir á fortíðina eru nýtt fyrirbæri.

Vesturlönd þurfa að byrja að taka á þessari tegund villimennsku nútímans eins og öðrum tegundum hennar. Við hlið nýja alþjóðadómstólsins um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni þarf að koma fjölþjóðlegur dómstóll, sem fjallar um glæpi gegn menningarsögu mannkynsins.

Draga þarf stjórnvöld Afganistans og Kína, Indlands og Serbíu til ábyrgðar fyrir menningarsöguleg illvirki, sem framin hafa verið á yfirráðasvæðum þeirra á síðustu árum, ekki síður en fyrir önnur illvirki gegn mannkyninu. Þessa nýju tegund glæpa þarf að stöðva strax.

Bandaríkjastjórn ber að hafa forustu um stofnun slíks dómstóls, því að þarlend stjórnvöld vöktu upp skrímslið, sem núna fer hamförum í eyðimörkum Afganistans.

Jónas Kristjánsson

DV