Hátækni-skatturinn

Greinar

Ýmsir skemmtilegir kostir opnast til skattlagningar í framhaldi af hugmyndaríkri reglugerð menntaráðherra um höfundagjald á auða geisladiska og diskabrennara á þeim forsendum, að hugsanlega verði þessi tækni notuð af einhverjum til að fjölfalda hugverk annarra.

Nærtækast er auðvitað að skattleggja pappír, því að hugsanlegt er, að einhverjum detti í hug að nota þá tækni til að ljósrita bækur og önnur hugverk. Einnig mætti skattleggja farþega í millilandaflugi, af því að einhverjum þeirra kynni að detta í hug að smygla áfengi.

Skatturinn á auða geisladiska og diskabrennara gengur lengra en aðrir skattar af slíku tagi, að tæknin er ekki bundin við eina starfsgrein, það er að segja afritun á tónlist og öðrum höfundaréttarvörðum hávaða. Þessi tækni er notuð almennt í hátæknigeiranum.

Geisladiskar og diskabrennarar eru til dæmis notaðir til að varðveita gögn. Á fjölmiðlum eru geisladiskar orðnir algengasta leiðin til að varðveita gögn á borð við texta, myndir og síður. Ekkert af þessari starfsemi kemur höfundarétti tónskálda eða annarra hið minnsta við.

Margt gerræðið er smærra í sniðum en þetta gerræði menntaráðherra. Skatturinn á geisladiska hækkar verðið til þeirra, sem kaupa þá í miklu magni, úr 50 krónum í 70 krónur. Í því tilviki er skatturinn 40%. Í heild nemur skatturinn hundruðum þúsunda á mörg fyrirtæki.

Við venjulegar aðstæður mundu DVD-diskar, sem rúma þúsundir megabæta, taka á þessu ári við af CD-R -diskum, sem rúma hundruð megabæta. Búast má við, að reglugerð menntaráðherra tefji þessa þróun, af því að skattur hans á fyrrnefndu diskana er tvöfalt hærri.

Kjarni málsins er, að ráðherrann er að tilhlutan Alþingis að skattleggja einn í þágu annars. Pólitíkusarnir gætu alveg eins tekið upp á að skattleggja kennara í þágu múrara og sjómenn í þágu bænda, ef einhver hagsmunahópur gerist nógu frekur og hávaðasamur.

Menntaráðherra ver reglugerðina með tilvísun til þess, að svona sé farið að í Evrópusambandinu. Margt gott hefur komið þaðan, en ekki eru gæðin þó sjálfvirk. Vel getur verið, að sumt sé misráðið af því, sem mönnum getur dottið í hug í því annars ágæta sambandi.

Hvort sem er á meginlandi Evrópu eða norður á Íslandi þá hefur reglugerð um skatt á hátækni í þágu höfunda á öðru sviði þau áhrif að tefja fyrir þróun hátækni í þessum heimshluta, sem þó er einfær um að dragast aftur úr Bandaríkjunum án hins nýja skatts.

Afstaða Evrópusambandsins skaðar okkur, af því að hún kemur sennilega í veg fyrir, að kærumál héðan verði tekin gild fyrir evrópskum dómstólum. Þess vegna verður tæpast hægt í þessu tilviki að hnekkja gerræði íslenzkra stjórnvalda eins og oft hefur verið unnt.

Íslenzk hátækni og íslenzk gagnasöfnun munu því ekki leita réttlætis í Evrópu, heldur hugsa Alþingi og menntaráðherra þegjandi þörfina. Þessar stofnanir hafa sýnt forgangsröðun sína, þar sem popparar eru ofarlega á listanum en hátækni og gagnasöfnun neðarlega.

Benda má ráðherranum á aðra frumlega leið til skattlagningar. Hún er sú, að tónabúðir tölvuskrái viðskiptavini sína og síðan séu allir þeir skattlagðir, sem ekki eru á þeirri skrá, af því að hugsanlega gætu þeir verið að fjölfalda hávaða heima í stað þess að fara í búðirnar.

Ráðherrann lifir í gömlum hugarheimi, sem ekki hefur lagað sig að nýjum aðstæðum og getur ekki tekið við nýrri tækni án þess að hlaða steinum í götu hennar.

Jónas Kristjánsson

DV