Framtíð Vatnsmýrar

Greinar

Ríkið og Reykjavíkurborg eru í þann veginn að ákveða að velja langþráðu tónlistarhúsi og ráðstefnumiðstöð stað á Faxaskálsvæðinu beint í fluglínu aðalbrautar flugvallarins í Vatnsmýri. Hinir opinberu aðilar gera tæpast ráð fyrir hléum á sinfóníum við flugtök og lendingar.

Bæjaryfirvöld í Kópavogi eru nýlega farin að gamna sér við að reisa bryggjuhúsahverfi á uppfyllingu í fluglínu þessarar sömu aðalbrautar flugvallarins. Í því tilviki sem hinu fyrra eru stjórnvöld óbeint að gera ráð fyrir, að dagar gamla flugvallarins í Vatnsmýri séu taldir.

Innanlandsflugið flyzt til Keflavíkurvallar fljótlega eftir að stjórn Bandaríkjanna ákveður að leggja niður eftirlitsstöðina á Íslandi. Hernaðarþarfir heimsveldisins hafa gerbreytzt frá dögum kalda stríðsins. Nú steðja hættur að Bandaríkjunum úr öðrum áttum en norðri.

Þegar þar verður komið sögu, mun öllum ljóst vera, að ríkið getur ekki tekið á sig rekstur Keflavíkurvallar án þess að leggja niður Reykjavíkurflugvöll. Þá verður miklu ódýrara að reisa innanlandsflugstöð við Leifsstöð en að leggja nýjan flugvöll á einhverjum þriðja stað.

Við flutninginn lengjast ferðir frá húsdyrum til húsdyra um þrjátíu mínútur í innanlandsflugi og fargjald hækkar um 2%. Það er nú allur vandinn. Auðvitað finnst fólki í erindisrekstri slíkt ekki gott, en fjölskyldur í einkaerindum hafa þegar tekið bílinn fram yfir flug.

Nokkur atvinna mun flytjast með innanlandsfluginu, en það eru smámunir í samanburði við aðra atvinnu, sem verður til í fyrirtækjum, er koma sér fyrir á svæðinu. Reykjavík fær til ráðstöfunar land, sem jafngildir tveimur Austurbæjum milli Lækjargötu og Snorrabrautar.

Í háskólanum hafa menn áætlað, að hækkun á verðgildi Vatnsmýrar og nágrennis við langþráð brotthvarf flugvallarins nemi frá þrjátíu milljörðum króna og upp í fimmtíu milljarða. Borgarland, sem hingað til hefur verið nánast arðlaust, verður allt í einu gulls ígildi.

Frá sjónarmiði borgarinnar og borgarbúa getur fátt verið óhagkvæmara en að leggja miðbæjarland undir innanlandsflug. Fólk og fyrirtæki í Vatnsmýrinni munu leggja stórfé í sköttum til Reykjavíkurborgar, ekki bara hundrað sinnum meira en nú kemur þaðan frá flugrekstri.

Með flutningi innanlandsflugsins fær Reykjavíkurborg frábært og einstakt tækifæri til að skipuleggja viðbót við gamla miðbæinn. Um það geta menn verið sammála, hvort sem þeir vilja byggja mikið eða lítið á svæðinu, hvort sem menn vilja fremur háhýsi eða fuglatjarnir.

Margs konar sjónarmið og hagsmunir rúmast í senn í Vatnsmýrinni. Þótt mikið verði byggt í Vatnsmýrinni, verður unnt að koma upp samfelldu útivistarsvæði frá Tjörninni upp að Elliðaárvatni, eins konar framlengingu á hinum vinsæla Elliðaárdal alla leið niður í miðbæ.

Með atkvæðagreiðslunni um framtíð flugvallarins í Vatnsmýri fá borgarbúar einstakt tækifæri til að ákveða að flýta fyrir því, að borgin auðgist af veraldlegum og náttúrufarslegum verðmætum í senn. Slíkt tækifæri til beinna afskipta af málinu kemur ekki nema einu sinni.

Þótt kjósendur geti ekki beinlínis ákveðið framtíð Vatnsmýrar í atkvæðagreiðslunni, geta þeir þvingað frambjóðendur og framboðslista til að lofa því í kosningabaráttunni að ári að rýma svæðið við fyrstu hentugleika, hvort sem það verður eftir fimmtán ár eða fyrr.

Ráðagerðir um tónlistarhöll og ráðstefnumiðstöð í annarri fluglínu aðalbrautar vallarins og bryggjuhverfi í hinni eru góðir fyrirboðar um framtíð Vatnsmýrar.

Jónas Kristjánsson

DV