Grillið

Veitingar

Grillið er langdýrast
Grillið á Hótel Sögu hefur lært af reynslu Radisson-keðjunnar og er orðið langdýrasta veitingahús á Íslandi, hefur hækkað verðlag sitt um 40% á tveimur árum. Þar kostar 6.700 krónur á mann að borða þríréttað með kaffi, áður en kemur að víninu. Mun betri veitingahús á borð við Holt og Sommelier taka um og rúmlega 5.000 krónur á mann.

Matur sem skreyting
Grillið er eins og Perlan veitingahús flókinnar skreytilistar, sem íslenzkir kokkar stunda grimmt um þessar mundir. Allir réttir eru fyrirfram vandlega útfærðir frá fagurfræðilegu sjónarmiði. Málið vandast í eldhúsinu, þegar beðið er um eitthvað, sem ekki er á matseðlinum. Ég bað um jarðarber með rjóma og fékk sneidd jarðarber í hrúgu og rjóma í skál. Eldhús Perlunnar gat hins vegar haldið uppi myndlistarmerkinu og búið til listaverk úr óvæntri ósk af þessu tagi.

Hörð smálúða
Maturinn í Grillinu er yfirleitt fremur góður, raunar betri en í Perlunni, þótt hvorugur staðurinn geti talizt neinn merkisberi matargerðarlistar. Grillið bilaði í einföldu atriði, réttri tímasetningu á pönnusteikingu smálúðu. Hún var ofsoðin og hörð að hluta, en rétturinn var fallegur sem uppstilling á listaverkasýningu. Hafa má matreiðslu á viðkvæmum fiski til vitnis um, hvort eiginleg matargerðarlist sé í heiðri höfð eða víki fyrir öðrum sjónarmiðum, svo sem myndlist.

Mild og góð krydd
Bezti kostur matreiðslunnar í Grillinu var mild og góð kryddnotkun að frönskum hætti, andstæða tízkufyrirbærisins “fusion”, sem skellir æpandi kryddi í milda rétti til að þjóna kynslóð, sem hefur eyðilagt bragðlaukana með tómatsósum og sinnepi. Það sem setur gamla og nýja franska matreiðslu á stall langt fyrir ofan aðrar matreiðsluhefðir heimsins er einmitt milt samspil í bragði, þar sem grunnbragð hráefna fær að njóta sín.

Minta með nauti
Bezti réttur Grillsins í prófuninni voru ristaðir humarhalar með kóngasveppum, ekki bara fínt og fagurlega upp settir, heldur einnig meyrir og ilmandi af sjálfu hráefninu. Grilluð nautalund var líka meyr og góð, naut hóflegrar meðferðar á mintu, en uxahalamaukið, sem fylgdi, var ekki til bóta. Hæst náði skreytilistin í þremur eftirréttum á einum diski, súkkulaðiturni, grænertuís og brenndum búðingi. Aðeins dísætir eftirréttir eru á matseðlinum.

Sagan stendur kyrr
Höfuðprýði Grillsins er, að það hefur haldizt óbreytt síðan elztu menn muna. Það er fastur punktur í tilverunni. Inniviðir eru alltaf þeir sömu og þjónustan er nánast alltaf jafngóð. Matreiðslan er því miður frosin í þessum sömu stellingum fyrri tíma, sem væri kannski hægt að fyrirgefa, ef verðlagið hefði líka frosið í gömlum tölum.

Jónas Kristjánsson

DV