Skuggahliðar fjölþjóðafyrirtækja hafa komið vel í ljós í fréttum að undanförnu, sérstaklega í þriðja heiminum, þar sem sum þeirra taka höndum saman við siðlaus og gerspillt stjórnvöld um að mjólka auðlindir og markaði með hörmulegum afleiðingum fyrir almenning.
Olíurisinn Shell hefur undanfarin ár verið að eyðileggja óshólma árinnar Níger. Olían lekur þar um allt, fælir veiðidýr og drepur fiska og rústar efnahagslegar forsendur fyrir lífi fólksins á svæðinu. Ríkisstjórnin í Nígeríu hefur ekkert gert til varnar almenningi.
Um sjö milljónir manna bjuggu til skamms tíma í óshólmunum og næsta nágrenni þeirra. Fólkið hefur ekki lengur náttúruna sér til viðurværis, af því að hún hefur verið eyðilögð. Olíulekinn á svæðinu jafngildir tíu Exxon Valdez slysum og hækkar hitann á svæðinu.
Sömu sögu er að segja af olíufélögum víðar í þriðja heiminum. Nú síðast hefur verið vakin athygli á, að stjórnvöld í Súdan hafa hrakið heila ættbálka burt af víðáttumiklum svæðum, svo að olíufélagið Lundin Oil geti fengið frjálsar hendur til að athafna sig.
Olíurisarnir eru ekki einu fjölþjóðafyrirtækin, sem stunda glæpi í þriðja heiminum. Í fyrra birtust í bandarískum blöðum rannsóknafréttir um framgöngu lyfjarisa í þriðja heiminum, þar sem þau múta stjórnvöldum til að ná fram ógeðfelldum markmiðum sínum.
Lyfjarisarnir prófa hættuleg lyf í skjóli spilltra stjórnvalda í þriðja heiminum, selja þriðja heiminum útrunnin lyf á uppsprengdu verði, falsa niðurstöður rannsókna á aukaverkunum lyfja og ráða morð- og ofbeldissveitir til að hafa hemil á þeim, sem gagnrýna framferðið.
Fræg eru dæmi um, að íþróttavörurisar á borð við Nike, sem reknir eru áfram af tærri gróðafíkn, nota þræla í verksmiðjum sínum í þriðja heiminum og að skipafélög með hentifána gera slíkt hið sama. Þrælunum er haldið niðri með ofbeldi, nauðgunum og morðum.
Fjölþjóðleg risafyrirtæki hafa mörg hver tekið upp vinnubrögð mafíunnar. Þau spilla stjórnvöldum með mútum og stjórna markaðinum með ofbeldi. Á Vesturlöndum taka þau vaxandi þátt í stjórnmálum með því að hækka greiðslur til kosningabaráttu vildarvina sinna.
George W. Bush hlaut gífurlegan fjárstuðning olíurisa og lyfjarisa til að ná völdum í Bandaríkjunum í upphafi þessa árs. Völdin eru síðan meðal annars notuð til að knýja ístöðulitlar ríkisstjórnir í þriðja heiminum til að sjá gegnum fingur við atferli fjölþjóðarisanna.
Að ósk olíurisa í Texas hefur Bush þegar afturkallað kosningaloforð sitt um takmörkun á útblæstri koltvísýrings í Bandaríkjunum. Þar með hefur hann kippt fótunum undan fyrirhuguðu samkomulagi helztu auðþjóða heims um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.
Þetta skiptir miklu, því fjórðungur af losun koltvísýrings í heiminum er bandarískur. Evrópusambandið og Bandaríkin hafa í framhaldi af Kyoto-ráðstefnunni gert ítrekaðar tilraunir til að ná samkomulagi um koltvísýringinn, nú síðast í Triest á Ítalíu fyrr í mánuðinum.
Eftir stefnubreytingu Bush eru horfur á samkomulagi nánast engar. Það mun hafa skaðleg áhrif á vistkerfið í heiminum og valda fyrst miklum hörmungum í þriðja heiminum, því að þar hafa menn litla fjárhagslega burði til að mæta afleiðingum upphitunar andrúmsloftsins.
Gróðafíknir og siðlausir fjölþjóðarisar eru orðnir stærsti óvinur mannkyns. Baráttan gegn vinnubrögðum þeirra verður eitt helzta verkefni nýrrar aldar
Jónas Kristjánsson
DV