Það er ekki Schengen-samkomulaginu að kenna, að stækkun Leifsstöðvar kostar fjóra milljarða króna. Stækkunin leysir dýrari verkefni en að tengja Ísland ferðafrelsi milli fjórtán landa í Vestur-Evrópu. Fyrst og fremst er verið að auka afköst stöðvarinnar.
Þótt umferð um Leifsstöð sé ekki mikil miðað við stærð stöðvarinnar, er álagið misjafnt yfir daginn. Flugleiðir reka tengiflug yfir Atlantshaf, sem felur í sér, að afgreiða þarf margar flugvélar á nokkurn veginn sama tíma. Álagið er snemma morguns og síðdegis.
Miðað við núverandi aðstæður er því réttara að segja kostnaðinn við stækkun Leifsstöðvar einkum fela í sér opinberan styrk við stefnu Flugleiða í Atlantshafsflugi. Aðeins fjórðungur stækkunarinnar felur í sér sjálfa landamæravörzlu Schengen-svæðisins.
Aðild að Schengen kostar milljarð í framkvæmdum og mikinn rekstur, en alls ekki eins mikinn og andstæðingar aðildarinnar vilja vera láta. Fyrir kostnaðinn fáum við nánari tengsli við stærsta markað heims og sitjum þar við sama borð og aðrar þjóðir samstarfsins.
Þetta er okkur mikilvægt á tímum andstöðu ýmissa helztu stjórnmálaafla landsins við aukið Evrópusamstarf Íslands og á tímum minnkandi verðmætis Efnahagssvæðis Evrópu. Meðan ráðamenn okkar standa í vegi aðildar að Evrópusambandinu er Schengen ágætt skref.
Samt er ástæðulaust að neita því, að ýmsar hættur verða áleitnari við aðildina að Schengen. Sérstaklega er mikilvægt, að hún leiði ekki til, að glæpamenn í skipulögðum mafíuhópum eigi auðveldara með að ferðast til Íslands vegna afnáms vegabréfaskoðunar.
Flestir mafíumenn eru ekki eftirlýstir, hafa gild vegabréf og geta komizt hjá því að nota hótel, þar sem fylla þarf út skráningarkort. Það setur óneitanlega að fólki hroll, þegar ráðamenn segja, að eftirlit með glæpamönnum flytjist af landamærunum og út á göturnar.
Óbreytt tollaeftirlit felur í sér, að ekki verður auðveldara en áður að smygla inn hættulegum efnum, en það kemur ekki í veg fyrir innflutning hættulegs fólks. Þess vegna ber að leggja sérstaka áherzlu á virka aðild að samstarfi Schengen-ríkjanna gegn mafíumönnum.
Mikilvægt er, að íslenzk löggæzla nýti sér markvisst aðganginn að tölvuskrám Schengen um meira en milljón eftirlýsta menn og um milljónir annarra mikilvægra atriða, sem varða glæpastarfsemi innan og utan Evrópu. Þannig getur Schengen hert varnir okkar.
Viðbótin við Leifsstöð verður tekin í notkun á morgun, þegar farþegar frá Bretlandi fara um sérstaka vegabréfaskoðun, sem farþegar frá öðrum löndum Vestur-Evrópu þurfa ekki að sæta. Bretar eru ennþá utan aðildar að Schengen eins og Írar og Svisslendingar.
Ríki Vestur-Evrópu velja sér rétti á hlaðborði möguleikanna. Bretland er í Evrópusambandinu, en ekki í Schengen, þar sem Ísland er aðili, án þess að vera í Evrópusambandinu. Flest ríki Evrópusambandsins, en ekki öll, eru að taka upp evruna sem mynt.
Þessi fjölbreytni möguleikanna gerir mörk Evrópusambandsins óskýrari en ella. Hún hefur fært okkur Evrópska efnahagssvæðið, sem lengi hefur gefizt okkur vel, þótt gildi þess fari nú að minnka. Fjölbreytnin hefur núna fært okkur tækifæri Schengen-samstarfsins.
Meðan landsfeðurnir hafa að leiðarljósi, að Ísland hafni Evrópusambandinu, er brýnt að taka sem mestan þátt í samstarfi Evrópu á afmörkuðum sviðum.
Jónas Kristjánsson
DV