Shalimar, Caruso

Veitingar

Shalimar er ekki indverskur
Lítill og ljótur skyndibitastaður í Aðalstræti siglir undir fölsku Indlandsflaggi og heitir Shalimar, þótt kokkurinn kynni ekki stafrófið í indverskri eldamennsku. Þar var afgreitt undarlega þykkt brauð, sem kallaðist Nan, og undarlega þurr kjúklingur, sem nefndist Tandoori. Hvorugt minnti á samnefndan mat, sem boðinn er á indverskum veitingahúsum innan og utan Indlands. Fullyrt var, að leirofn væri á staðnum, en hann hlýtur að hafa verið bilaður.

Pottréttir í hitakössum
Á Shalimar eru einkum seldir pottréttir upp úr hitakössum að hætti mötuneyta. Kjúklinga-korma reyndist aðallega vera sósa með dálitlu af kjúklingabitum hér og þar. Linsubaunagrautur var frambærilegur, hrísgrjón voru undarlega misjafnlega rauð og Raita reyndist vera óblönduð jógúrt. Heill réttur eða tveir hálfir kostuðu 850 krónur og skrýtna brauðið 200 krónur að auki. Þjónusta á staðnum var kærulaus og gleymin.

Skaðar málstaðinn
Hér á landi er hægt að fá raunverulegan Indlandsmat í virðulegum umbúnaði Austur-Indíafélagsins við Hverfisgötu, sem er tiltölulega dýrt veitingahús fyrir fólk, sem er að fara út að borða. Því hefði verið fengur að raunverulega indverskum skyndibitastað í borgarlífinu fyrir fólk, sem er bara að nærast, en Shalimar þjónar ekki slíku hlutverki. Hann gefur ranga mynd af indverskri matargerð og skaðar málstað hennar.

Caruso er hálf-ítalskur
Caruso við Bankastræti er að rustalega notalegu útliti og góðri þjónustu aðeins ítalskari en Ítalía og Pasta Basta, en enginn þeirra þriggja er spennandi sem slíkur. Primavera í Austurstræti er nokkru dýrari staður, en er um leið eini staðurinn á landinu, sem getur kallað fram raunverulega Ítalíu í matargerðarlist.

Nánast óbreyttur í fimm ár
Caruso hefur haldizt nánast óbreyttur í fimm ár, allt frá smjöri í álpappír yfir í efnisrýrar pappírsþurrkur. Þar koma margir ferðamenn fyrri part kvölds, enda er staðurinn vel í sveit settur. Vínlistinn er ekkert sérstaklega ítalskur og matseðillinn hóflega. Innihaldslaus kynningarbæklingur er á ensku með íslenzkum myndatextum. Espresso-kaffið var þunnt að amerískum hætti.

Matreiðslan fer batnandi
Matur er fremur góður í Caruso og hefur farið batnandi með árunum, þvert gegn íslenzkri hefð. Hvítlauksristuð hörpuskel var vel úti- látin og bragðgóð. Lax að hætti Ítala var hæfilega lítið soðinn, húðaður tómatmauki og borinn fram með hæfilega lítið soðnu grænmeti. Þessi ítalska framsetning á laxi gekk alveg upp, nema hvað þarflausar kartöflur voru ekki góðar.

Jónas Kristjánsson

DV