Mannvonzka á þingi

Greinar

Þjónusta alls þorra alþingismanna við þrönga sérhagsmuni innlendrar framleiðslu og einokunarheildsölu grænmetis felur í sér glæpsamlega árás á heilsu þjóðarinnar. Ofurtollar Alþingis á innfluttu grænmeti eru hvorki meira né minna en hrein mannvonzka.

Vegna ofurtollanna er grænmeti svo hrikalega miklu dýrara en á öðrum Vesturlöndum, að neyzla þess nemur innan við helmingi þess, sem ráðlagt er af Alþjóða heilbrigðisstofnuninni og innan við helmingi þess, sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar.

Það er alls ekki ný bóla, að paprikan fari yfir 700 krónur kílóið. Hún hefur gert það árvisst, síðan ofurtollarnir voru settir. Hækkunin gerist alltaf einu sinni á ári, þegar út rennur tímabil tollfrelsis á innfluttu grænmeti eftir reglum Evrópska efnahagssvæðisins.

Fyrir löngu var allt vitað, sem menn þurftu að vita um hollustu grænmetis og nauðsyn þess að stórauka hlut þess í fæðuvali þjóðarinnar. Alþingismenn vissu um það, þegar þeir settu ofurtolla á grænmeti á sínum tíma. Þeir vissu, að þeir voru að skaða heilsu þjóðarinnar.

Eins og venjulega tóku þeir þrönga sérhagsmuni í kjördæmum sínum fram yfir almannahagsmuni. Það gera þeir, hvenær sem þeir fá færi á slíku. Og það gera þeir enn þann dag í dag, þegar þeir ramba út og suður í vangaveltum um, hvort ofurtollarnir séu í lagi.

Alþingi setti lögin og landbúnaðarráðherrar allra tíma hafa túlkað þau í botn, þar á meðal sá núverandi. Í fyrradag kom enn í ljós á Alþingi, að mannvonzkan á sér öruggt skjól í Sjálfstæðisflokknum, Framsóknarflokknum og hjá Vinstri grænum og Frjálslyndum.

Það versta við lögin er, að þau veita landbúnaðarráðherra svigrúm til misnotkunar, sem núverandi landbúnaðarráðherra hefur ekki síður notfært sér en fyrirrennarar hans. Þess vegna er ábyrgð hans mest og því getur hann ekki falið sig að baki alþingismanna.

Málflutningurinn til stuðnings ofurtollunum er með endemum. Guðjón Arnar Kristjánsson, þingmaður Frjálslyndra og Vestfirðinga, bullaði botnlausa vitleysu á þingi í fyrradag um gin- og klaufaveiki, rétt eins og paprika og annað grænmeti hafi gin og klaufir.

Að undanförnu hefur greinilega komið fram, að landbúnaðarráðherra og förunautar hans hyggjast misnota fárið og æðibunuganginn út af gin- og klaufaveikinni í Evrópu til að treysta í sessi takmarkanir á innflutningi búvöru og herða innlenda einokun.

Engum heilvita manni hefur dottið í hug, að gin- og klaufaveiki eða kúariða eða aðrar uppákomur af slíku tagi í verksmiðjuframleiðslu alidýra fylgi grænmetisneyzlu og allra sízt neyzlu lífrænt ræktaðs grænmetis, sem mjög lítið er framleitt hér á landi.

Þvert á móti er augljóst, að skipti úr kjöti í grænmeti í neyzlu fólks kemur í veg fyrir, að það skaðist af sjúkdómum, sem kunna að fylgja kjöti. Alþingismenn koma einmitt í veg fyrir þessa brýnu tilfærslu í neyzlu með því að halda ofurtollum á sjálfri hollustuvörunni.

Að lokum skal það ítrekað, svo að ekki fari milli mála, að lög Alþingis um ofurtolla og túlkun landbúnaðarráðherra á þeim fer langt út fyrir hefðbundna gæzlu þröngra sérhagsmuna. Hún felur í sér glæpsamlega atlögu þessara málsaðila að sjálfu heilsufari þjóðarinnar.

Hér er ekki aðeins verið að gagnrýna þá, sem settu lögin á sínum tíma, heldur alla þá, sem nú tala út og suður og hindra þannig, að lögin verði afnumin.

Jónas Kristjánsson

DV