Einar Ben kúreki
Einar Ben heitir þemahús í veitingabransanum, sem hefur lifað í kyrrþey í fjögur ár í þremur sölum, bláum, rauðum og grænum, á annarri hæð í gömlu húsi í Veltusundi 1, notalegur staður með varfærinni og fínlegri eldamennsku. Staðarmenn hafa gefizt upp á réttum dagsins og bjóða nú aðeins fastan matseðil í eins konar kúrekastíl, rétt eins og þeir hafi ruglazt á Einari skáldi og Roy Rogers.
Allt bragð dauft
Svo varfærin er matreiðslan, að kryddnotkun mældist vart í bragði. Boðað turmeric-bragð fannst ekki að seljurótarmauki, boðað saffran-bragð fannst ekki að kartöflustöppu, engifer-bragð fannst ekki að engiferfroðu og boðað estragon-bragð fannst hvorki að smjöri né hvítlaukssósu. Að vísu er kostur, að hráefnið fái sjálft að njóta sín, en þá er hæpið að gefa í skyn í matseðlinum, að krydd sé notað í töluverðum mæli.
Fín meðferð hráefnis
Meðferð hráefnis var ágæt, humar vafinn í smokkfisk, risahörpuskel, lax og lambahryggvöðvi, allt saman meyrt og fínt. Meira að segja soðið grænmeti var stinnt undir tönn. Mikilvægustu boðorð nýfranskrar matargerðarlistar voru því að mestu í heiðri höfð á Einari Ben, þótt brenndir grænmetisþræðir kæmu eins og fjandinn úr sauðarleggnum með öllum réttum. Kartöflu-lagkaka með lambakjötinu var þurr og vond, minnti á Bæjaraland.
(Einar Ben, Veltustundi 1, sími 511 5090)
Creole Mex í stuði
Bezti staður Texas-Louisiana-Mexikó-matreiðslu í borginni er tvímælalaust Creole Mex í einskismannslandi við Laugaveg 178. Þar er matreiðslan nákvæmari eftirlíking upprunasvæðisins en í Amigos við Tryggvagötu og enginn ami af bjórfnyk, sem er orðin inngróinn í húsbúnaðinum á annars frambærilegum Amigos. Svo hefur Creole Mex erft tiltölulega vandaðar innréttingar frá fyrra veitingahúsi á sama stað og býður hina þægilegustu þjónustu.
Alls konar tortillur
Vel var skammtað á Creole Mex, tortillurnar stórar og fullar af kjöti, þar á meðal djúpsteikt og stökk chimi-changas, bökuð burritos og pönnusteikt enchiladas. Forréttirnir voru góðir, pönnusteikt fajitas og djúpsteikt nachos. Ágætur og skemmtilegur vert mætti hins vegar kynna sér betur hjá frúnni í eldhúsinu, hvernig hver réttur verður til, svo að hann geti betur satt fróðleiksfýsn gesta.
Næm eldun á fiski
Frúin í eldhúsinu kann fleira fyrir sér en tortillur, svo sem sjá mátti af svínfeitum eldissilungi eldsteiktum, sem var hæfilega eldað flak, milt kryddað og borið fram með stinnu grænmeti, en lítt merku kartölfusalati. Creole-humar með cajun-smjöri var lítill og illa skorinn, en meyr og ánægjulega bragðmildur miðað við nafngiftina.
(Creole Mex, Laugavegi 178, sími 588 1750)
Jónas Kristjánsson
DV