Samsæri gegn heilsunni

Greinar

Samkeppnisráð hefur komið upp um víðtækt samsæri innlendra grænmetisheildsala gegn neytendum eins og það er orðað í úrskurði ráðsins, þar sem það sektar Sölufélag garðyrkjumanna, Ágæti og Mötu um 105 milljónir króna fyrir alvarleg brot á samkeppnislögum.

Rannsókn ráðsins leiddi í ljós, að árið 1995 mynduðu þessi fyrirtæki einokunarhring til að draga úr samkeppni og hækka verð á grænmeti til neytenda. Samsæri af þessu tagi varðar við landslög, en því miður eru ekki til nein lög, sem ná yfir önnur og alvarlegri samsæri.

Stjórnmálaöflin og landbúnaðarkerfið í landinu hafa áratugum saman stundað samsæri gegn neytendum með því að leggja hindranir í vegi samkeppnisvöru frá útlöndum. Þetta hafa þau á síðustu árum gert með því að leggja tímabundna ofurtolla á innflutt grænmeti.

Samsæri stjórnmálaafla og landbúnaðar felur ekki aðeins í sér árás á fjárhag almennings, heldur einnig á líf hans og heilsu. Það hefur nefnilega leitt til þess, að neyzla grænmetis á mann er hér á landi ekki nema helmingur af neyzlunni á mann á Vesturlöndum almennt.

Fyrir löngu var vísindalega staðfest, að neyzla grænmetis þarf að vera miklu meiri en hún er á Íslandi. Alþjóða heilbrigðisstofnunin hefur gefið út staðla, sem hvetja til tvöfaldrar grænmetisneyzlu á við þá, sem er hér á landi. Engar breytingar hafa hins vegar orðið hér.

Um þessar mundir er neyzla grænmetis að stóraukast í Evrópu vegna sjúkdóma, sem hafa komið upp í nautgripum og leitt til stórfellds niðurskurðar í Bretlandi og á ýmsum öðrum stöðum. Fólk flýr í hrönnum frá kjötneyzlu yfir í neyzlu grænmetis, sem talin er öruggari.

Þetta geta Evrópumenn, af því að þeir þurfa ekki að þola sams konar samsæri og íslenzkir neytendur. Fólk á Íslandi hefur hreinlega ekki ráð á að bæta heilsuna með þessum hætti, af því að stjórnmálaöfl og landbúnaðarkerfi nota ofurtolla til að gera grænmeti óhóflega dýrt.

Samsæri íslenzku grænmetisheildsalanna bliknar í samanburði við pólitíska samsærið gegn lífi og heilsu Íslendinga. Það er pólitíska samsærið, en ekki viðskiptasamsærið, er hefur gert grænmeti að dýrustu matvælum landsins, sem fólk notar aðeins sem meðlæti.

Í nágrannalöndunum hefur orðið viðhorfsbreyting ráðamanna, sem ekki sér stað hér á landi. Í Þýzkalandi er kominn til skjalanna landbúnaðarráðherra, sem stefnir ekki aðeins að tilfærslu á neyzlu úr kjöti yfir í grænmeti, heldur sérstaklega yfir í lífrænt ræktað grænmeti.

Lífrænt ræktað grænmeti, sem felur í sér miklu minna af skaðlegum efnum en venjulegt grænmeti, er sums staðar í Evrópu orðinn einn tíundi hluti grænmetisneyzlunnar og fer ört vaxandi. Hér er neyzla lífrænt ræktaðs grænmetis hins vegar innan við einn af hundraði.

Lífrænt grænmeti er heldur dýrara en annað grænmeti. Þegar íslenzku ofurtollarnir leggjast á það, verður það svo dýrt í verzlunum, að fólk, sem tæpast hefur ráð á öðru grænmeti, lætur sig ekki dreyma um að kaupa það grænmeti, sem felur í sér mestu hollustuna.

Smákrimmarnir í Sölufélagi garðyrkjumanna, Ágæti og Mötu fá makleg málagjöld, en engin lög ná yfir stóru glæpamennina í stjórnmálunum og landbúnaðarkerfinu, enda sitja þeir meira eða minna í skjóli kjósenda, sem virðast sætta sig við að láta fara svona með sig.

Það bezta við smákrimma-dóminn er, að hann vekur athygli á rotnu verndunarkerfi, sem býður heim samsæri gegn heilsu þjóðarinnar í skjóli stjórnmálanna.

Jónas Kristjánsson

DV