Davíð lemur Halldór

Greinar

Staða Framsóknarflokksins í ríkisstjórninni hefur hríðversnað. Smám saman hefur forsætisráðherra tekið þar öll völd og valtað yfir samstarfsflokkinn eftir hentugleikum og jafnvel eftir landsfrægum reiðiköstum sínum, sem hafa gerzt æ tíðari upp á síðkastið.

Nýlega tók forsætisráðherra völdin af iðnaðar- og viðskiptaráðherra við skipun stjórnar Búnaðarbankans og rifti samkomulagi, sem utanríkisráðherra hafði gert um breytta skipan bankaráðsins. Hann gerði báða þessa ráðherra Framsóknarflokksins að ómerkingum.

Nýjasta og bezta dæmið um niðurlægingu Framsóknarflokksins eru viðbrögð hans við afnámi Þjóðhagsstofnunar, sem forsætisráðherra gaf fyrst í skyn og herti síðan á, þegar farið var að ræða málið. Formaður Framsóknar vældi lítillega og þingflokkurinn þegir þunnu hljóði.

Hér er aðeins verið að ræða þann þátt þessara mála og annarra slíkra, sem snýr að samstarfi stjórnarflokkanna. Hann felst í, að forsætisráðherra stýrir málum í ráðuneytum Framsóknar, gerir samstarfsráðherra að ómerkingum og spyr þá ekki álits á mikilvægum málum.

Vel kann að vera, að efnislegar ástæður séu fyrir yfirgangi forsætisráðherra í garð flokks utanríkisráðherra. Til dæmis eru flestir ráðherrar Framsóknarflokksins ekki mikilla sanda eða sæva. Í mörgum tilvikum er ástæða til að taka fram fyrir hendur þeirra.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur til dæmis unnið það afrek að liggja á umsókn um stækkun Norðuráls í Hvalfirði, af því að hún óttast, að sú stækkun leiði til enn frekari frestunar Reyðaráls fyrir austan. Tafirnar hafa nú fryst undirbúninginn að stækkun Norðuráls

Álver eru nefnilega byggðamál, en ekki efnahagsmál í augum iðnaðar- og viðskiptaráðherra og utanríkisráðherra, sem bæði vilja frekar álver í sínu kjördæmi en í kjördæmi Vestlendinga. Þessi viðhorf ráðherranna gefa fróðlega innsýn í sjúkan hugarheim Framsóknar.

Í máli Þjóðhagsstofnunar hefði verið eðlilegt að taka málið upp í ríkisstjórninni, úr því að athugun í forsætisráðneytinu hafði tekið þá stefnu, að gott væri að leggja stofnunina niður. Forsætisráðherra kaus að gera það ekki, því að hann vildi niðurlægja Framsókn.

Það hefur honum tekizt. Svo vel hefur honum gengið að aga utanríkisráðherra, aðra ráðherra og þingmenn Framsóknarflokksins, að þeir létu hann valta yfir sig og hreyfðu alls engum mótbátum í umræðum á Alþingi. Með fingursmelli getur hann lagt niður stofnun.

Engu máli skiptir, hvort reiðiköst forsætisráðherra í garð biskups, öryrkja, Þjóðhagsstofnunar og annarra aðila eru náttúruleg eða tilbúin. Það, sem máli skiptir, er, að þau eru helzta stjórntæki hans, aðferð hans til að fá aðra til að standa og sitja eins og honum þóknast.

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins telja sig hafa himinn höndum tekið í forustumanni, sem lætur aðra valdamenn skjálfa á beinunum, hvort sem þeir eru innan flokks eða utan. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins vilja fyrst og fremst sterkan leiðtoga að hætti fátækrar Suður-Ameríku.

Kjósendur Framsóknarflokksins hafa hins vegar unnvörpum flúið forustumann, sem ekki getur varizt ofbeldi og tuðar bara niður í bringuna; forustumann, sem er svo rúinn trausti, að hann getur ekki einu sinni haft áhrif á, hver er kosinn varaformaður í hans eigin flokki.

Halldór Ásgrímsson er búinn að vera sem stjórnmálamaður, svo er Davíð Oddssyni fyrir að þakka. Sú er helzta ástæða þess, að Framsókn er í rúst.

Jónas Kristjánsson

DV