Kínahúsið, Esja

Veitingar

Marktækt Kínahús
Eina kínverska veitingahúsið á landinu, sem ber nafn með rentu, er ódýrt Kínahúsið við Lækjargötu 8 (sími 551 1014), þar sem ég borða oft fyrir 595 eða 695 krónur í hádeginu og 1750 krónur á kvöldin. Þetta eru verð, sem sum hver hafa haldizt óbreytt árum saman. Fyrir það fæst sérlagaður og snöggeldaður kínverskur matur, sem ekki er mokað upp úr hitakössum og látinn jóðla í sósum eins og víðast hvar tíðkast á slíkum stöðum hér á landi.

Ódýrar veizlur
Í hádeginu fæst fyrir 595 krónur í Kínahúsinu matarmikil súpa, t.d. kjúklingasúpa, eggjadropasúpa eða deigbögglasúpa (Wun Tun), og aðalréttur með súrsætum rækjum og fyrir 695 krónur fæst súpan auk blöndu af þremur aðalréttum, djúpsteiktum rækjum og deigbögglum, kjúklingi í karrí, svínakjöti í ostrusósu og nautakjöti með grænmeti. Á kvöldin fæst súpa með fimm aðalréttum fyrir 1575 krónur og ferns konar viðameiri veizlutilboð fyrir 2350 krónur að meðaltali.

Notalegur staður
Matreiðslan og verðlagið síður en svo einu kostir Kínahússins, sem er notalega einfaldur og friðsæll staður með vingjarnlegri og látlausri þjónustu, þar sem gestir hallast að því að draga máltíð á langinn, bara af því að þeim líður vel. Raunar er ég alveg hissa á, að hinir Kínastaðirnir skuli þrífast í samanburði við þennan. Munið eftir að panta jasmín-te með matnum.

Esja er þægileg
Annar þægilegur matstaður í Reykjavík er veitingasalurinn á neðslu hæð Esjuhótels. Þar er þjónusta fagmannsleg og húsbúnaður vandaður, eins þreytlaus og á fyrsta degi. Þykkt teppi á gólfi dempar hljóð, mildir litir og mild lýsing tempra andrúmsloftið. Þetta er hinn fullkomni hótelstaður, ópersónulegur og notalegur í senn, sjaldgæft dæmi um, að nútímahönnun slái við gömlum skorti á hönnun.

Án hugmyndaflugs
Hugmyndaflug er bannorð í eldhúsi Esju. Matseðill og matreiðsla skera sig ekki úr meðalmennsku íslenzkrar veitingamennsku með eilíft sömu sýnisréttum fyrir einnota túrista og óbreytanlegu sjávarréttahlaðborði, sem kostar 1190 krónur í hádeginu og 2090 krónur á kvöldin, að súpu dagsins meðtalinni. Túristamatseðlar kosta 1320 og 1980 krónur, en að öðru leyti er verðlagið hátt, 4100 krónur þríréttað með kaffi.

Sjávarréttaborð
Áhugaverðasti þáttur matreiðslunnar á Esju er heitt og kalt sjávarréttaborðið, þótt þar vanti tilfinnanlega gott hrásalat. Þar er oft góður lax kaldur, einnig sumir síldarréttirnir, einkum einfalda síldin kryddlegna. Plokkfiskurinn ber oft af heitu réttunum og stundum eru þar fiskitegundir, sem fást ekki í hverri fiskbúð, en allur líður heiti hlutinn fyrir að standa lengi í hitakössum.

Jónas Kristjánsson

DV