Sterkir boða ógæfu

Greinar

Þegar persónugervingur íslenzkrar spillingar bað þjóðina í síðustu kosningum um að veita sér brautargengi til að berjast gegn spillingu, voru aðeins örfá prósent þjóðarinnar reiðubúin að trúa. Það segir okkur, að fáir Íslendingar séu reiðubúnir að trúa hverju sem er.

Hins vegar er um það bil helmingur Ítala reiðubúinn að trúa, að persónugervingur ítalskrar spillingar, Silvio Berlusconi, sé bezti kostur þjóðarinnar sem nýr forsætisráðherra eftir þingkosningarnar í maí, þótt hann hafi reynzt lélegur og skammlífur landsfaðir árið 1994.

Ennfremur er um það bil helmingur Perúmanna reiðubúinn að trúa, að persónugervingur þarlendrar spillingar, Alan Garcia, sé bezti forsetakosturinn í úrslitakjörinu í maí eða júní, þótt hann hafi reynzt skelfilegur forseti landsins árin 1985­1990 og hafi lengi verið landflótta.

Eftir er að sjá, hvort lýðskrumararnir á Ítalíu og í Perú ná hinum eftirsóttu embættum. Hitt er víst, að tjón Ítala verður minna en Perúmanna, af því að hinir fyrrnefndu búa við þingræði, en hinir síðarnefndu við forsetaræði, þar sem forsetinn er kosinn beinni kosningu.

Vegna meiri valddreifingar við þingræði heldur en við forsetaræði eru meiri líkur á, að Ítalir geti varizt misbeitingu valds heldur en Perúmenn. Sá hefur reynzt galli forsetaræðis í fátækum löndum, að landsfaðirinn misbeitir valdinu til að afla sér aukinna valda.

Þannig hafa forsetar Suður-Ameríku flestir orðið að hálfgerðum eða algerum einræðisherrum, þar á meðal sá, sem nýlega flúði frá Perú rúinn trausti. Það var Alberto Fujimori, sem lengi vel var einn helzti ástmögur þeirra, sem telja vestrænt hagkerfi vera allra meina bót.

Þannig hafa nánast allir forsetar Afríku orðið að meira eða minna trylltum einræðisherrum, sem hafa stórskaðað þjóðir sína og sumir hverjir skilið þær eftir í þvílíkum rústum, að óbætanlegt má telja. Margir þeirra náðu völdum með stuðningi kjósenda í kosningum,

Lýðræði að vestrænum hætti felst nefnilega ekki bara í kosningum. Þær eru nauðsynlegur þáttur lýðræðis, en ekki fullnægjandi. Þrír aðrir þættir skipta ekki minna máli, í fyrsta lagi lög og réttur, í öðru lagi skoðana-, funda, mál- og eignafrelsi og í þriðja lagi valddreifing.

Lýðræði gagnast ekki, nema allir þessir fjórir þættir séu meira eða minna virkir. Valddreifingin er ekki léttvægari en hinir þættirnir, enda má sjá, að skortur á henni hefur víðast hvar orðið lýðræði fjötur um fót í þriðja heiminum og raunar einnig í ríkari löndum.

Valddreifing er ýmiss konar. Á einn veg er valdi dreift milli framkvæmda-, löggjafar- og dómsvalds. Á annan veg er valdi dreift milli sveitarstjórna, landsstjórnar og fjölþjóðasamtaka. Einnig eru til stofnanir úti í bæ, sem hafa áhrif á gang mála, svo sem þrýstihópar af ýmsu tagi.

Því miður hafa ráðamenn á Vesturlöndum og ráðamenn fjölþjóðastofnana í viðskiptum og fjármálum verið of blindir á nauðsyn valddreifingar. Þeir hafa trúað, að sterkir menn tryggi bezt, að lánað eða gefið fé komi fátækum þjóðum að notum, þótt reynslan sýni annað.

Mestu vandamál þjóða, ríkja og heimshluta stafa einmitt af sterkum mönnum á borð við Hitler, Stalín, Maó, Milosevits og svo framvegis endalaust. Reynslan er miklu betri af veikum leiðtogum, sem þurfa að þrúkka hver við annan um framgang mikilvægra mála.

Íslendingar eru vel settir í flokki þjóða, sem meira eða minna hafa alla fjóra þætti lýðræðis í góðu lagi og lenda því ekki í hremmingum af völdum sterkra leiðtoga.

Jónas Kristjánsson

DV