Nokkrir næringarfræðingar eru með böggum hildar yfir því, að forsætisráðherra skuli ekki leita næringarráða hjá þeim, heldur fara í smiðju bandarísks töfralæknis og fá leyfi hans til að megra sig með aðferðum, sem fela meðal annars í sér egg og beikon í morgunverð.
Í stað þess að amast við aðferðum, sem virðast koma forsætisráðherranum að gagni, væri þessum næringarfræðingum og ýmsum fleiri slíkum nærtækara að spyrja sig, hvers vegna ráð næringarfræðinga hafa komið viðskiptavinum þeirra að átakanlega litlu gagni.
Íslenzkum næringarfræðingum virðist mörgum hverjum ósýnna um að fylgjast með fræðunum eftir að þeir koma úr skóla en mörgum öðrum stéttum sérfræðinga. Að minnsta kosti virðast greina- og bókahöfundar íslenzkrar næringarfræði sumir vera harla úreltir.
Á síðasta áratug tuttugustu aldar varð almennt vitað, að fitumyndun í líkama fólks stafar einkum af óstýrilátri insúlínframleiðslu líkamans, sem stafar einkum af óhóflegu kolvetnisáti þess, einkum þó neyzlu einfaldra sykurtegunda, sem bætt er út í flest matvæli fólks.
Þótt vestrænar þjóðir, og þar á meðal Íslendingar, hafi stórminnkað fituát sitt að ráði næringarfræðinga, hafa þær haldið áfram að þyngjast skelfilega. Það stafar af, að kolvetnisrík fæða á borð við pöstur og pítsur og sykurblönduð pakkafæða eru orðin að þjóðarréttum.
Léttmjólk og undanrenna hafa tekið við af feitri nýmjólk og alls konar fituskertar smjörvörur hafa tekið við af feitu smjöri, svo sem auðveldlega má sjá í rekkum stórmarkaða. Samt hafa Íslendingar haldið áfram að fitna, enda er sykri óspart mokað í mjólkurvörur.
Á líkamsræktarstöðvum halda sumir næringarfræðingar pöstum og sykurdrykkjum að fólki og stuðla þannig að vítahring kolvetna-insúlíns-offitu. Síðan skrifa þessir úreltu næringarfræðingar greinar í blöð og skrifa bækur, þar sem sykur er talinn ódýr og hollur orkugjafi.
Ekki er nóg með, að íslenzkum næringarfræðingum virðist mörgum hverjum vera ókunnugt um uppgötvanir á samhengi sykurs, insúlínframleiðslu og offitu, heldur geta þeir ekki heldur skilið, hvers vegna offitufólk fer ekki varanlega eftir ráðum þeirra, heldur gefst upp.
Ekki gengur að láta fólk hætta varanlega að reykja tóbak með sölu á nikótíntyggjó og nikótínplástrum, af því að sjálft fíkniefnið, nikótínið, er áfram notað. Alveg á sama hátt er ekki hægt að láta offitufólk hætta matarfíkn með því að halda fíkniefnunum áfram í fæðunni.
Sérfræðingum í áfengisfíkn dettur ekki í hug að láta fíklana hafa svo mikið sem eitt bjórglas á viku, af því að þeir vita, að það viðheldur fíkninni. Á sama hátt ber ekki að láta tóbaksfíkla hafa nikótíntyggjó og nikótínplástur og ekki láta kolvetnisfíkla hafa einfaldan sykur.
Næringarfræðingar virðast margir hverjir ekki skilja hugtakið fíkn. En það hugtak skýrir þó, hvers vegna offitufólk getur ekki fylgt ráðum um mataræði. Það ræður einfaldlega ekki við sig, þegar það situr andspænis fíkniefnunum. Líkaminn heimtar sitt blóðsykurflipp.
Forsætisráðherra hefur tekið upp aldarfjórðungs gamla og grófa aðferð Atkins læknis, sem mörgum hefur reynzt vel, enda er hún óneitanlega áhrifamikil. Á síðustu árum hafa komið fram mildari og hægari, en hollari aðferðir, sem fela meðal annars í sér grænmeti.
Næringarfræðingar ættu ekki að amast við ágætri megrun forsætisráðherra heldur fara að kynna sér hin nýju fræði, sem lýsa þætti fíknar og insúlíns í offitu.
Jónas Kristjánsson
DV