Þrír Frakkar

Veitingar

Þrír sneisafullir Frakkar
Eins og þeir eiga skilið eru Þrír Frakkar hjá Úlfari sneisafullir af háværu fólki í hádegi og að kvöldi árið um kring og loka þannig þríhyrningi matreiðslu, umhverfis og stemmningar, sem gerir veitingahús að hornsteini í lífi borgar. Ekki skaðar verðlagið, átta fiskréttir að meðaltali á 1190 krónur í hádegi og 1735 krónur að kvöldi, hvort tveggja að tærri grænmetissúpu dagsins innifalinni. Þríréttað val af fornlegum fastaseðli með kaffi kostar 3700 krónur á mann.

Nákvæmur eldunartími
Réttur eldunartími fiskjar er aðall góðrar matreiðslu Úlfars Eysteinssonar á Þremur Frökkum, sem haldizt hefur óbiluð frá árdögum staðarins, þótt hugmyndaflugið hafi daprazt svo, að nú eru sömu tilbrigðin endurtekin í sífellu, staðlað meðlæti með mörgum réttum, svo og ostasósur og ostbökun út í eitt. Sjaldgæfum fisktegundum hefur fækkað á matseðli, sem þó slær við öðrum matseðlum á Íslandi með því að breytast tvisvar á dag.

Silkimjúkur saltfiskur
Afbragðsgóður plokkfiskur með rúgbrauði er einkennisréttur Þriggja frakka. Enn betri er silkimjúkur saltfiskur, fínlega eldaður í ýmsum útgáfum, sem breytast frá degi til dags, stundum með hamsatólg, í annan tíma ostbakaður eða þá með kapers og rauðlauk og einnig suðrænn með tómatmauki og olífum. Síðast man ég eftir nákvæmt grilluðum þorski í mildri sinnepssósu. Þá voru líka boðnar gellur, rauðspretta, smálúða, karfi, steinbítur, tindabikkja og barri.

Fiskhús Íslands eru fá
Ferskur og fjölbreyttur fiskur ætti að vera aðall íslenzkra veitingahúsa í nútíma ferðamannaflóðsins. Samt eru hér bara þrjú fiskhús. Fyrir utan Þrjá Frakka eru það áðurnefndir Tveir fiskar og Tjörnin. Sticks’n Sushi í Aðalstræti er líka góður fiskistaður, en japanskrar ættar. Laugaás við Laugarásveg er úr sögunni, hættur að vera með breytilegan fiskimatseðil dagsins og tilbiður frystikistuna eins og flestir matstaðir landsins, ekki sízt þeir yngstu og verstu.

Notalegur og glaður
Þótt fiskimatreiðslan sé eins góð á Tveimur fiskum við Tryggvagötu og enn betri á Tjörninni við Kirkjutorg, hafa Þrír Frakkar eina hlið þríhyrningsins, stemningu gestanna, umfram Tjörnina og tvær hliðar þríhyrningsins umfram Tvo fiska, stemningu gestanna og notalega gamaldags húsakynni í þremur litlum og þröngum stofum, studd elskulegri þjónustu, sem heldur streitulausum dampi, þótt oft sé mikið að gera. Ekki má gleyma, að þetta er einn af fáum stöðum, sem tekur mark á reglum um reyklaus svæði, en loftræstingin mætti þó vera betri í þrengslunum, þegar þau eru mest.

(Þrír Frakkar hjá Úlfari, Baldursgötu 14, sími 552 3939)
Jónas Kristjánsson

DV