Öfugmæla-verðlaun

Greinar

Flestir eru þeir látnir, sem eiga verðlaun skilið fyrir að veita birtu og yl í þjóðfélagið án notkunar kola eða olíu. Landið var rafvætt og hitaveituvætt fyrir mörgum áratugum, löngu áður en núverandi ríkisstjórn tók til starfa. Hún á engan þátt í því merka umhverfismáli.

Feður málsins eru löngu liðnir ráðamenn Reykjavíkur, sem stofnuðu Hitaveituna og reistu orkuverið við Ljósafoss. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki lagt neitt nýtt til orkumála, nema vera skyldi aukna áherzlu á stórar stíflur og miðlunarlón orkuvera í þágu stóriðju.

Það er eins og hver önnur sviðsetning, þegar erlendir menn með mikla sýniþörf, þar á meðal Míkhaíl Gorbatsjov, sem hefur of lítið að gera, stofna sérstök samtök fyrir sig í tízkugrein umhverfismála og veita verðlaun út og suður, þar á meðal íslenzku ríkisstjórninni.

Vatnsorkuver og hitaveitur hafa lengi verið sérgrein og stolt Íslendinga. Við teljum þetta að mestu leyti vera hvíta orkuöflun, sem sé sjálfbær og mengi ekki umhverfið. Hingað til höfum við að mestu leyti haldið okkur við framkvæmdir, sem valda ekki miklum skaða.

Við þurfum þó að fara varlega, því að komið hefur í ljós á síðustu árum, að vatnsorkuver eru ekki eins skaðlítil og áður var haldið. Í nóvember síðastliðnum skilaði Alþjóða stíflunefndin tímamótaáliti til Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðabankans um efnahagsáhrif af stíflum og lónum.

Nefndin skoðaði þúsund stíflur og lón um allan heim og komst að raun um, að þessar framkvæmdir hefðu oftast skaðað efnahag þjóða í stað þess að bæta hann. Mesti vandinn er, að stíflur hindra eðlilegan flutning á aur niður árfarvegi og valda breytingum á jarðvegi.

Aswan-stíflan í Egyptalandi hindrar aur í að bætast við óshólma Nílar og hamlar móti sjávargangi. Nú er sjór farinn að ganga á land í óshólmunum og ógnar milljónum manna. Einnig hefur jarðvegur orðið saltari í Nílardal og gefur minni gróður af sér. Þarna tifar tímasprengja.

Enn verri er vandinn í Kína, þar sem risastíflum og risalónum hefur verið komið fyrir án tillits til hliðarverkana. Eins og í Egyptalandi breytist jarðvegur áveitusvæðanna í Kína og gefur sífellt minna af sér. Þar tifar tímasprengja yfirvofandi hungursneyðar.

Við höfum verið svo heppin á Íslandi, að öflugustu orkuverin byggjast að mestu leyti á rennslisvirkjunum, sem þurfa ekki háar stíflur og mikil miðlunarlón. Þannig hefur Þjórsár- og Tungnaársvæðið að mestu verið virkjað án mikilla breytinga á landslagi svæðisins.

Miðlunarlón hafa hér á landi þann alvarlega galla að vera með breytilegu yfirborði eftir miðlunarþörfum hvers árstíma. Þannig er reiknað með, að hæðarmunur í fyrirhuguðu lóni við Kárahnjúkavirkjun verði yfir 70 metrar. Sveiflan í hæð lónsins á að nema rúmum 70 metrum.

Við lónið verða því víðáttumikil landflæmi, sem stundum eru undir vatni og stundum þurr og eru hvarvetna til óprýði. Samkvæmt biturri erlendri reynslu myndast þarna dauður foksandur og fokleir sem hindrar fjörugróður og stuðlar að gróðureyðingu í nágrenninu.

Miðlunarlón verða aldrei neinn áfangastaður ferðamanna, hvað þá að menn geti haft tekjur af að sigla með ferðamenn um þau. Í Þórisvatni höfum við dæmi um dautt lón af þessu tagi. Það er eyðimörk eins og landið í kring og sýnir okkur, hvernig Hálsalón verður.

Við höfum meira en nóga orku til frambúðar, þótt við förum að ráði Alþjóða stíflunefndarinnar og höfnum mengandi risastíflum og -lónum ríkisstjórnarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV