Skothríðin er hafin

Greinar

Skothríð fíkniefnamanna um helgina er einn margra fyrirboða. Í fyrra var framið fíkniefnamorð. Fimm ár eru síðan fíkniefnamenn börðu hnýsinn tollvörð til óbóta. Smám saman færist vandi umheimsins inn í landið og fyrr eða síðar þurfum við að læra að taka á honum.

Án aðgerða verður ástandið svipað og það er orðið víða erlendis, þar sem fíkniefnamönnum hefur tekizt að grafa undan þjóðskipulaginu með ógnunum og ofbeldi, mútum og fyrirgreiðslum. Við sjáum nú þegar, að íslenzk burðardýr þora ekki að segja hverjir réðu þau til verka.

Hér á landi eru að myndast undirheimar, þar sem lög og réttur þjóðfélagsins gilda ekki, heldur miskunnarleysi yfirmanna fíkniefnasölunnar. Þessi harði heimur teygir klærnar upp á yfirborðið og spillir gæzlumönnum þjóðfélagsins, alveg eins og gerzt hefur víða erlendis.

Ekki hefur tekizt að hefta útbreiðslu efnanna. Stóru fíkniefnamálin hófust vegna upplýsinga frá upphafspunkti ferils efnanna en ekki frá endapunktinum. Efnin voru tekin við tollskoðun, en ekki vegna upplýsinga neytenda, sem alls ekki vilja segja til þeirra, sem efnin selja.

Hin svokölluðu stóru fíkniefnamál landsins hafa ekki haft umtalsverð áhrif á markaðinn. Verðsveiflur hafa verið litlar. Það segir okkur, að náðst hefur aðeins í lítið brot efnanna, sem eru í umferð. Verðum við þannig að sætta okkur við síaukna neyzlu og síaukna glæpi?

Fyrir tólf árum benti tímaritið The Economist á, hvernig mætti leysa vandann sem fylgir ólöglegri sölu fíkniefna. Vakin var athygli á lausninni í leiðara DV á þeim tíma og raunar nokkrum sinnum síðan. Nú síðast hefur þekktur lögmaður tekið undir þessi sjónarmið.

Lausnin felst í að lögleiða fíkniefnin, rétt eins og áfengi er löglegt og geðbreytilyf eru lögleg. Salan verði tekin úr höndum glæpamanna og færð í hendur ríkisverzlana eða lyfjabúða. Þar með væri fótunum kippt undan þeirri starfsemi sem núna nagar innviði þjóðskipulagsins.

Neyzla fíkniefna mun aukast, en lögbrot stórminnka. The Economist vísaði á sínum tíma til sérfræðinga, sem höfðu komizt að þeirri niðurstöðu, að rétt væri að fórna minni hagsmunum fyrir meiri, sætta sig við aukna neyzlu, en njóta í staðinn aukins friðar og réttlætis.

Vandi neytenda ólöglegra efna snýr ekki aðeins að neyzlunni sjálfri, heldur enn frekar að kostnaðinum og spillingunni við að komast yfir efnin. Vandi þjóðfélagsins felst margfalt meira í ólöglegri starfsemi undirheima heldur en í afleiðingum neyzlunnar uppi á borði.

Þótt mikilvægt sé að hamla gegn neyzlu ólöglegra fíkniefna er enn mikilvægra að hindra myndun hættulegra valdamiðstöðva, sem grafa undan þjóðfélaginu. Sú var niðurstaðan í Bandaríkjunum, þegar áfengisbann var afnumið, og þetta lögmál gildir líka um fíkniefnin.

Ekki má gleyma, að áfengi er leyft, þótt það sé mjög hart fíkniefni og margfalt dýrara og hörmulegra vandamál en ólöglegu fíkniefnin. Ekki má gleyma, að þorri afbrota í landinu er framinn undir áhrifum áfengis og lyfja úr lyfjabúðum, frekar en ólöglegra fíkniefna.

Samt er sala áfengis leyfð í sérstökum ríkisverzlunum og sala geðbreytilyfja leyfð í sérstökum lyfjabúðum. Engar efnisforsendur eru fyrir því að fela undirheimalýð að sjá um sölu annarra fíkniefna en áfengis og geðbreytilyfja og leyfa þeim að grafa undan þjóðfélaginu í leiðinni.

Með því að leyfa raunsæi að leysa hræsni af hólmi sem leiðarljós okkar í baráttunni gegn fíkniefnaheiminum getum við hindrað, að innviðir þjóðfélagsins bresti.

Jónas Kristjánsson

DV