Galileo

Veitingar

Fallegur Galileo
Galileo er spánnýr veitingastaður á horni Hafnarstrætis og Vesturgötu, látlaust og snyrtilega innréttaður á fjórum gólfum; listsýningasal í kjallara, kaffistofu uppi á lofti og veitingasölum á tveimur aðalhæðum. Rifið hefur verið innan úr húsinu, svo að burðarvirkin njóta sín. Inn hafa verið settir sveigðir tréstólar og járnborð með borðplötum úr marmarasalla, fagur borðbúnaður, tauþurrkur og kertaljós. Einni skuggi innréttingarinnar er fyrirferðarmikil matargerðarvél að baki afgreiðsluborðs.

Fínleg matreiðsla
Matarmiklir portobello-sveppir voru pönnusteiktir með mikilli steinselju og litlum hvítlauk, kraumaðir í hvítvíni, fínn réttur. Sjávarréttasalat var mun lakari forréttur, því að litlu rækjurnar voru harðar og farnar að taka lykt, en salatið var fallegt, með humar, hörpuskel og kræklingi í skelinni. Fiskur dagsins var fínlega eldaður og skemmtilega barbeque-kryddaður karfi, borinn fram með ágætum saffran-hrísgrjónagraut. Lambalundir voru góðar, heldur meira steiktar en um var beðið, með litlum og góðum kantarellu-sveppum. Ostar hússins voru hæfilega þroskaðir og ítalskur panna cotta búðingur var léttur í maga.

Ítalskt svigrúm
Eftir aðeins eina heimsókn við upphaf Galileos er of snemmt að gefa matreiðslunni einkunn. Hún hefur farið vel af stað og virtist í notalega góðum klassa ítölskum, en bar merki stöðlunar í grænmeti með aðalréttum, bæði fiski og kjöti. Tíminn leiðir í ljós, hvort staðarmenn hafa úthald í harðri samkeppni reykvískrar veitingaflóru eða koðna niður eftir góða byrjun eins og Rex og ýmsir fleiri. Nú er lag í framboði ítalskrar matreiðslu, því að heldur hefur sigið metnaður ítölsku matstaðanna, sem fyrir voru í borginni.

Ekkert fusion hér
Ástæða er til að fagna hverjum nýjum veitingastað, sem ekki fylgir fusion-tízkunni. Sú blanda andstæðna vestrænnar matreiðslu og austrænnar kryddnotkunar er hættuleg í meðförum og þarfnast nærfærni. Hún gengur upp á Sommelier, þar sem vandað er til verka. Víðast annars staðar í bænum er fusion lítið annað en aðferð við að fá tómatsósu- og sinnepkynslóðir til að borða utan skyndibitastaða. Í því skyni skella menn æpandi kryddi í eðlismilda rétti. Galileo er laus við þennan áleitna vanda nútímans.

Sanngjarnt meðalverð
Þetta er staður meðalverðs. Þrír réttir með kaffi kosta um 4400 krónur á mann, minna en á ýmsum lakari stöðum í miðbænum. Þjónustan er notaleg, staðurinn smart, matseðillinn áhugaverður og dósatónlistin lágvær. Staðurinn er bara opinn á kvöldin, enda kvarta veitingamenn um, að fólk fari ekki út að borða í hádeginu, þrátt fyrir lægra verð. Það mundi batna, ef útgáfa matarmiða leysti mötuneyti í stofnunum og fyrirtækjum af hólmi.
(Galileo, Hafnarstræti 1-3, sími 5529500)
Jónas Kristjánsson

DV