Gegnsæi og traust

Greinar

Notalegt er þjóðfélag, þar sem fólk treystir hvert öðru, embættismönnum sínum og stjórnmálamönnum, svo og innviðum þjóðfélagsins. Aðgerðir til að efla og tryggja traust manna á samfélaginu eru brýnni þáttur vestræns lýðræðis en frjálsar kosningar á fjögurra ára fresti.

Tugir dæma þess eru í þriðja heiminum, að kosningar séu haldnar reglulega, án þess að vestrænt lýðræði teljist ríkja. Í þessum löndum skortir lög og rétt, frelsi til skoðana, funda og frétta og gegnsæi í innviði þjóðfélagsins. Sukksamir lýðskrumarar ráða ferðinni.

Sum atriði eru svo sjálfsögð og einföld, að við áttum okkur ekki á, að þau séu meðal forsenda lýðræðis. Tökum fasteignaskrána sem dæmi. Með nákvæmri skráningu, sem er gegnsæ og nýtur trausts, geta menn sannað eignarétt sinn án þess að leita skjóls hjá sterkum aðila.

Einn af einföldu þáttunum er, að til skuli vera flugslysanefnd, sem gefur út skýrslur um orsakir flugslysa. Þar sem þær eru gefnar út, eru þær gegnsæjar og opnar fyrir gagnrýni. Líklegt má telja, að slík gagnrýni leiði smám saman til betri vinnubragða í flugslysanefnd.

Svo alvarlegir annmarkar eru á nýrri skýrslu, að fullyrða má, að núverandi flugslysanefnd njóti ekki trausts fólks. Hún er talin skauta léttilega yfir kerfislæg vandræði í flugmálum landsins. En skýrslan er gegnsæ og vekur umræðu, sem getur leitt til endurbóta á kerfinu.

Annað þekkt dæmi í nútímanum er umhverfismat, sem að vestrænni fyrirmynd hefur verið tekið upp við undirbúning stórframkvæmda á borð við orkuver. Með því ferli verður málatilbúnaður gegnsærri og auðveldara verður að koma af stað málefnalegri umræðu.

Hitt er svo líklegt, að í fyrstu umferðum komi í ljós, að ekki sé nógu vel staðið að umhverfismati, ekki sízt þegar verið er að renna stoðum undir framkvæmdir, sem í eðli sínu eru meira pólitískar en hagkvæmar. Slíkt umhverfismat hagsmunagæzlu mun ekki njóta trausts manna.

Þriðja dæmið um gegnsæi og traust er, að vestræn ríki leitast við að draga mikilvæg hlutverk úr höndum rétt kjörinna fulltrúa og fela í hendur embættismanna, sem ekki þurfa að vera á teppinu hjá ráðherrum. Þannig eru seðlabankar og þjóðhagsstofnanir gerðar sjálfstæðar.

Það skerðir traust manna á slíkum stofnunum hér á landi, að ráðamenn skuli vera með nefið niðri í þeim. Forsætisráðherra amast við gagnrýni í skýrslum Þjóðhagsstofnunar, þótt slík gagnrýni þyki sjálfsögð og nauðsynleg hjá þjóðhagsstofnunum nágrannaríkjanna.

Það skerðir líka traust manna á slíkum stofnunum, ef þeim er stjórnað af þreyttum stjórnmálamönnum, sem fá embættið fyrir að hætta að vera fyrir í pólitíkinni. Slík misnotkun á Seðlabankanum rýrir traust manna á honum og spillir getu hans til að valda hlutverkinu.

Einnig er þáttur vestræns lýðræðis, að fólk geti treyst gjaldmiðlinum. Gengi hans má aðeins breytast hægt á löngum tíma. Vegna erfiðleika við að standa undir þeirri kröfu hafa vestrænar þjóðir í auknum mæli farið að nota öflugar myntir á borð við dollar og evru.

Loks má nefna gegnsæi, sem þarf að vera í fjárreiðum stjórnmálanna, svo að fólk sjái, hvernig pólitíkin er fjármögnuð. Lög um opnar fjárreiður eru forsenda gegnsæis, sem er síðan forsenda umbóta, sem að lokum leiða til trausts. Þannig er vestræn lýðræðisþróun.

Í mörgu erum við aftarlega á merinni í þessu ferli vestræns lýðræðis. Leiðtogar okkar fara sér óþarflega hægt við að efla gegnsæi og traust í þjóðfélaginu.

Jónas Kristjánsson

DV