Eldhúsið, Sjanghæ

Veitingar

Þjónustan ein batnaði
Eldhúsið og Sjanghæ styðja kenninguna um, að því meira, sem hlutirnir breytist, því meira séu þeir eins. Breytingar á eignarhaldi og umbúnaði hafa aðeins megnað að bæta þjónustu, sem er orðin þægileg á báðum stöðum. Matreiðsla er enn slök á báðum stöðum, verð sérrétta er hátt og hlaðborðin í hádeginu hafa síður en svo orðið árennileg við umskiptin. Þau geta hins vegar óneitanlega hentað svöngum og blönkum.

Skyndibitar á færibandi
Skyndibitabar með færibandi rétta hefur verið settur upp fremst í húsnæði Eldhússins í Kringlunni. Nokkrir kaldir smáréttir fara hring eftir hring á færibandi til minningar um kvikmynd Chaplins um Nútímann. Þetta var fljótleg og frambærileg fæða, sérstaklega hrásalatið, og hlífir pyngjunni óneitanlega. Aðrir réttir á bandinu voru pasta, kæfa, samlokur, sushi og tertusneið. Frambærileg spergilsúpa var innifalin 420 króna meðaltalsverði færibandsréttanna. Súpa með tveimur smáréttum var full máltíð á 840 krónur.

Sætudýrkun í Eldhúsinu
Ástæðulítið er að hætta sér innar í Eldhúsið. Hlaðborðið felur í sér sómasamlega súpu, þrjá magafyllingarrétti í hitakössum og ýmislegt efni til eigin hrásalatgerðar á 950 krónur. Af sérseðli prófaði ég ferska fisktvennu ofgrillaða, steinbít og heitreyktan lax. Dísæt hunangssósa var með skán og steiktir kartöflustöppu-klattar voru skorpnir. Dísætt ávaxtamauk klæddi laxinn. Kokkurinn virðist hafa dálæti á sætu bragði og þessi samsetning var ekki sannfærandi. Matarverð af sérréttaseðli er 4300 krónur þríréttað með kaffi.
(Eldhúsið, Kringlunni, s. 581 4000)

Básar horfnir í Sjanghæ
Búið er að rífa básana, sem voru fremst í Sjanghæ við Laugaveg 28 og opna þannig salarkynnin betur en áður. Meira er af vönduðum skreytingum og húsbúnaði, þar á meðal fínir tréstólar útskornir og nokkur enn fínni, útskorin borð. Vínglös eru á fæti á borðum. Staðurinn gæti nánast talizt virðulegur að kvöldi, ef þunnar pappírsþurrkur og auglýsingaútvarp drægju ekki niður. Mesta aðdráttaraflið hefur þó 890 króna hádegishlaðborð.

Þykkur hveitihjúpur
Á matseðlinum í Sjanghæ eru ýmis freistandi heiti rétta, sem ég ætla að prófa síðar. Nokkrir fastaseðlar fjögurra og fleiri rétta eru að meðaltali á 2900 krónur með kaffi. Einn þeirra var fimm rétta og hafði að geyma vel heita og hálftæra kjúklingasúpu með sveppum, sæmilega meyran kjúkling með cashew-hnetum og snöggsteiktu grænmeti, svo og frambærilegt lambakjöt með brokkáli í ostrusósu, en því miður einnig súrsætar rækjur í þykkum og ólystugum hveitihjúp og afar seigt svínakjöt með sætri sósu dökkri.
(Sjanghæ, Laugavegi 28, 551 6513)
Jónas Kristjánsson

DV