Argentína, Hornið

Veitingar

Sérhæfðir veitingastaðir
Argentína og Hornið eru gróin og traust veitingahús, sem fundu sér stað í lífinu á fyrsta degi og hafa verið þar síðan, Argentína í nautasteikinni og Hornið í pöstunni og pítsunni. Fólk sækir þessa staði frá þeim sjónarhóli og verður sjaldan fyrir vonbrigðum, af því að stjórnendur staðanna hafa úthald til að halda staðli ár eftir ár. Slíkum veitingahúsum vegnar yfirleitt betur en hinum, sem ekki hafa eindreginn fókus.

Nautasteik Argentínu
Argentína er með dýrustu veitingahúsum landsins, 5800 krónur á mann þríréttað með kaffi áður en kemur að víni. Húsakynni eru ekki aðlaðandi, farið er um langan undirgang til að komast inn í dimman matsal með groddalegu tréverki. Básum hefur verið fækkað til bóta, svo að salurinn er opnari en áður. Staðurinn er samt áfram innilokunarlegur. Kostur er þó við myrkrið á staðnum, að maður sér illa, hversu ljótur staðurinn er.

Einhæf kartafla bökuð
Ef fólk fer út að borða með því hugarfari að fá sér nautasteik, er Argentína kjörin, því að hráefni nautakjötsins er þar jafnan gott, en getur verið misjafnt á hinum dýru matstöðunum í bænum. Mestu máli skiptir, að tímasetning nautasteikinga í eldhúsi er nákvæm, en meðlætið er einhæft, bökuð kartafla. Kryddlegið nautakjöt carpaccio var fínn forréttur og sömuleiðis hvítlauksgrillaðar risarækjur. Eftirréttir voru afar sætar og óhollar hitaeiningabombur. Þjónusta er ágæt og fumlaus.
(Argentína, Barónsstíg 11, sími 551 9555)

Pöstur og pítsur Hornsins
Hornið er hversdagslegri og ódýrari staður, sem selur pöstur á 1460 krónur, pítsur á 1300 krónur, fiskrétt dagsins með súpu á 1120 krónur og hefðbundna þrírétta máltíð með kaffi af fastaseðli á 3700 krónur áður en kemur að víni. Ef frá eru taldir skyndibitastaðir, er þetta fyrsti pöstu- og pítsustaðurinn í bænum og skartar enn óbreyttum innréttingum í kaffihúsastíl að baki stórra útsýnisglugga að fáförnu Hafnarstræti.

Góðar tímasetningar
Hefðbundinn matur er frambærilegur á Horninu. Þorskurinn var hæfilega skammt eldaður, mikið pipraður og borinn fram með sterkri tómatsósu, pastaræmum, léttsteiktu grænmeti og miklu af olífum. Lambafillet var líka hæfilega skammt eldað, milt kryddað og safaríkt, með ágætu jafnvægi í bragði blandaðs meðlætis annars vegar og fiskjar hins vegar. Kokkurinn missti hins vegar tökin á hörpuskeljar-forrétti og lét balsamsósu fljóta í miklu magni um diskinn, en hörpufiskurinn sjálfur var meyr.
(Hornið, Hafnarstræti 15,
sími 551 3340)

Jónas Kristjánsson

DV