Grand

Veitingar

Hlutlaus hótelmatreiðsla
Veitingasalurinn á Grand hóteli hefur skánað og heitir ekki lengur Sjö rósir. Matreiðslan er komin upp í hlutlausan milliklassa að hætti hótela, sem þurfa að hafa mat handa þeim hótelgestum, sem ekki þora út fyrir dyr, en eru ekki að reyna að draga fólk utan úr bæ á forsendum matargerðarlistar. Væntingar matargesta eru engar og vonbrigðin þar af leiðandi engin. Matgæðingar meðal hótelgesta hér á landi eru hvort sem er svo fáir, að þeir rúmast allir á Hótel Holti.

Lapþunnt espresso
Fjórir stórir hörpudiskar voru einn forrétturinn á Grand, bornir fram með harðbrenndum laukþráðum og mildri Béarnaise-sósu með söxuðu spínati, sem ekki gaf neitt bragð, dæmigerður hlutleysisréttur að hætti keðjuhótela. Osthjúpaður lax var ofsoðinn og of þurr, borinn fram ofan á ágætum turni af kryddlegnu hvítkáli með kóríander og brúnni sósu til hliðar. Crème Brulée var létt og ágætt, borið fram í tveimur staupum. Svokallað espresso-kaffi var lapþunnt, enda kom það úr sjálfvirkri hnappavél.

Öfgar í skreytilist
Brúnni sósu með laxinum var slett til skrauts á breiða diskbarma, svo að ekki var hægt að leggja frá sér hnífinn án þess að óhreinka skaftið. Þetta er dæmi um skreytilist, sem er komin í svo miklar ógöngur meðal matreiðslumanna hér á landi, að hún skyggir ekki bara á matargerðarlist, heldur heftir beinlínis eðlilegt borðhald. Myndlistarárátta tröllríður mörgum veitingahúsum okkar, einkum þeim dýrustu, þar sem hún víkur raunverulegri matargerðarlist til hliðar.

Berskjaldaður matsalur
Fremur vandræðalega hannaður matsalur Grands er jafn berskjaldaður sem fyrr í anddyri hótelsins. Gamaldags básar með veggjum draga staðinn niður á bjórstofuplan, en opinn arineldur á miðju gólfi lyftir hins vegar staðnum og hamlar gegn skarkala frá anddyri. Stíllinn minnir á anddyri Hótel Sögu fyrir nýjustu breytingarnar, sem meðal annars fólu í sér brýnan aðskilnað anddyris og matsalar.

Reykvísk keðjuhótel
Hótel Holt er eina hótelið í bænum, sem leggur áherzlu á fína matargerðarlist í nýklassískum stíl. Næst á eftir koma Óðinsvé, þar sem meiri áherzla er þó á sjónvarpsfrægð en matargerðarlist. Þessir tveir hótelsalir draga til sín gesti utan úr bæ, en hinir þjóna nærri eingöngu hótelgestum. Grillið á Sögu er ásamt Perlunni annar af tveimur hátindum hinnar úrkynjuðu skreytilistar. Borg, Esja, Grand og Loftleiðir varðveita hina hlutlausu og stórslysalausu eldamennsku, sem fylgir keðjuhótelum um allan heim.
(Grand Brasserie, Sigtúni 38, sími 568 9051)

Jónas Kristjánsson

DV