Gamall ferðamálafulltrúi Íslendinga í Þýzkalandi sagði nýlega í blaðaviðtali, að uppistöðulón á hálendinu gætu nýtzt til ferðamála, ef þar verði komið upp skipulögðum bátsferðum, svo að fólk geti hallað sér aftur á bak og drukkið í sig landslagið umhverfis lónið.
Þessi draumsýn er fjarri raunveruleikanum. Uppistöðulón eru engin stöðuvötn frá náttúrunnar hendi. Þau eru ætluð til miðlunar. Stundum eru þau full af vatni og stundum er lítið í þeim. Við Kárahnjúka er gert ráð fyrir, að mismunur vatnshæðar verði 75 metrar.
Hver metri í lóðlínu jafngildir fleiri metrum í landslagi. Þar sem land er tiltölulega flatt eins og í Þjórsárverum, getur hver lóðréttur metri jafngilt hundrað metrum í landslagi. Á öllu þessu svæði er land, sem stundum er á kafi í vatni og stendur stundum upp úr vatninu.
Gróður eyðist á þessu belti misjafnrar vatnshæðar. Eftir situr moldarflag, sem rýkur í þurrkum og rífur upp gróður í nágrenninu. Þannig verður til annað belti uppblásturs utan innra beltisins og venjulega margfalt stærra. Þannig mun fara fyrir friðlandi Þjórsárvera.
Við þekkjum lítið til uppistöðulóna við gróið land. Hingað til hafa aðeins verið gerð lítil lón, einkum á Tungnaársvæðinu, þar sem nánast enginn gróður var fyrir. Við Þjórsárver er hins vegar ráðgert að búa til þrjátíu ferkílómetra lón, sem liggur inn á friðaða svæðið.
Þetta er ekkert venjulegt gróðurlendi, sem þar er ráðgert, að fari undir vatn, moldarflög og uppblástur. Það eru sjálf Þjórsárver, sem eru stærsta gróðurvin íslenzka hálendisins og njóta alþjóðlegrar friðunar frá 1981 í samræmi við ákvæði fjölþjóðasáttmálans frá Ramsar.
Vandamál uppistöðulónsins við Kárahnjúka verða svipaðs eðlis, en í öðrum hlutföllum. Þar verður mismunur vatnsborðs meiri, en áhrif hvers dýptarmetra minni á landið í kring vegna meiri bratta. Heildaráhrifin á náttúruna verða geigvænleg á báðum þessum stöðum.
Í umhverfisskýrslu sinni um Kárahnjúka hefur Landsvirkjun skautað létt yfir þessi áhrif, einkum óbeinu áhrifin utan sjálfs fjöruborðsins. Væntanlega verður bætt um betur á síðari stigum málsins, enda njóta áróðursskýrslur þessarar illræmdu stofnunar einskis trausts.
Þjórsárveranefnd er enn að skoða tillögu Landsvirkjunar um uppistöðulón í jaðri Þjórsárvera. Landbúnaðarráðherra hefur lýst yfir, að ekki verði skertur metri af svæðinu. Því miður segir reynslan okkur, að ekki er mikið að marka digurbarkalegar yfirlýsingar hans.
Samkvæmt nýrri skoðanakönnun DV er mikill meirihluti þjóðarinnar andvígur uppistöðulóninu við Þjórsárver. Því miður er málið flokkspólitískt, lónið stutt af meirihluta kjósenda Sjálfstæðisflokksins, sem ræður rúmlega öllu, sem hann vill ráða í ríkisstjórninni.
Naumur meirihluti kjósenda Framsóknarflokksins er hins vegar andvígur lóninu. Því er hugsanlegt, að ráðherrar flokksins komi í veg fyrir hryðjuverk í Þjórsárverum til að bæta fyrir hnekkinn á ímynd flokksins, sem stafar af harðri baráttu hans fyrir Kárahnjúkalóni.
Þannig er farið um hálendið, sem þjóðin hefur til varðveizlu fyrir hönd ófæddra kynslóða. Það er orðið að pólitískri verzlunarvöru. “Ef ég fæ að eyðileggja þennan stað, skal ég ekki eyðileggja hinn staðinn”, gætu verið einkunnarorð Framsóknarflokksins þessa dagana.
Hvorugur glæpurinn er ráðamönnum þó svo fastur í hendi, að samstilltara átak þjóðarinnar geti ekki hindrað óafturkræf hryðjuverk á stærstu víðernum Evrópu.
Jónas Kristjánsson
DV