Vesturlönd hossa Pútín

Greinar

Ef Slobodan Milosevic, fyrrum forseti Júgóslavíu, er stríðsglæpamaður, þá er Vladimir Pútín, núverandi forseti Rússlands, enn meiri stríðsglæpamaður. Hernaður hans í Tsjetsjeníu er villimannlegri en hernaður hins fyrrnefnda var í löndum hinnar gömlu Júgóslavíu.

Miskunnarlaus hernaður Pútíns hefur árum saman beinzt gegn venjulegum borgurum í Tsjetsjeníu. Fréttir þaðan berast hins vegar svo seint og stopult og myndir alls ekki, því að vestrænir fjölmiðlar hafa þar mun lakari aðstöðu til að fylgjast með en í Bosníu og Kosovo.

Mestu máli skiptir þó, að vestrænir leiðtogar töldu Vesturlöndum ekki hag í að bera blak af Milosevic, en eru hver um annan þveran að reyna að vera í góðu sambandi við Pútín. Þeir telja nauðsynlegt að hafa hann góðan, af því að Rússland er öflugt ríki, öfugt við Serbíu.

Meðan ráðamenn Vestur-Evrópu og Bandaríkjanna rífast nánast opinberlega í innri samskiptum sínum um allt sviðið frá Kyoto-sáttmálanum yfir dauðarefsingu og að eldflaugavörnum, eru þeir sammála um það eitt, að reyna að koma á sem beztum samskiptum við stjórn Pútíns.

Óveðursský leyniþjónustunnar eru að hrannast upp í Rússlandi, enda er Pútín alinn þar upp. Hvarvetna sjást merki þess, að arftakar KGB eru að taka völdin í landinu. Menn eru aftur byrjaðir að líta flóttalega kringum sig og tala í hálfum hljóðum eins og á tímum Stalíns.

Dæmin eru fjölbreytt. Stórgróðamenn eru látnir maka krókinn í friði, nema þeir séu fyrir Pútín, þá er skattalögreglan send á þá. Ef þeir eiga fjölmiðla, sem eru gagnrýnir á stjórnvöld, eru þessir fjölmiðlar afhentir öðrum, sem eru hallir undir forsetann og stjórn hans.

Vísindamenn eru handteknir vegna gruns um njósnir í þágu Vesturlanda og aðrir eru varaðir við ferðum til útlanda. Sama gildir um þá, sem hafa tekið að sér að fylgjast með framvindu umhverfismála í Rússlandi. Þeir eru þar á ofan hundeltir með opinberum ákærum.

Alexander Nikitin skipstjóri fann kjarnorkuvélar í ryðguðum kafbátahræjum við Kolaskaga. Á rúmum fimm árum hafa yfirvöld kært hann níu sinnum fyrir njósnir. Þar á meðal hefur hann bæði verið kærður fyrir brot gegn leynilegum lögum og gegn afturvirkum lögum.

Samstarfsmenn Pútíns úr leyniþjónustunni hafa undanfarið verið ráðnir hver á fætur öðrum til lykilstarfa í stjórnsýslunni. Þetta eru yfirleitt menn, sem eru heilaþvegnir í stalínskri kaldastríðshugsun. Helzti ofsækjandi Nikitins er orðin að lénsherra í Pétursborg.

Slysið í kafbátnum Kúrsk er dæmigert um aðvífandi myrkur í Rússlandi. Yfirvöld gáfu út margvíslegar yfirlýsingar um orsakir slyssins, sem allar voru mismunandi, en áttu allar þó það sameiginlegt að vera ekki bara rangfærðar eða rangar, heldur beinlínis fjarstæðar.

Almenningur í Rússlandi trúði auðvitað ekki einu orði í yfirlýsingum yfirvalda um slysið í Kúrsk. En menn hafa hægt um sig, því að þeir óttast hleranir á símum og tölvupósti. Smám saman eru Rússar að hverfa aftur inn í sjálfa sig eins og þeir urðu að gera á tímum Stalíns.

Eini munurinn á Stalín og Pútín er, að Stalín hafði áratugi til að móta ógnarstjórnina, en Pútín hefur aðeins verið við völd í hálft annað ár. Ef Vesturlönd halda áfram að moka peningum í Rússland, hefur Pútín góðan tíma til að reisa alræði leyniþjónustunnar að nýju.

Það er vestræn sjálfseyðingarárátta, að Bandaríkin og Vestur-Evrópa skuli koma sér saman um það eitt að veita arftaka Stalíns sem allra mestan stuðning.

Jónas Kristjánsson

DV