Loksins spörum við

Greinar

Bezta fréttin úr efnahagsgeiranum er, að við erum loksins farin að spara eftir kaupæði undanfarinna ára. Innflutningur bíla er helmingi minni á þessu ári en á sama tíma í fyrra. Í fyrsta skipti í langan tíma hefur dregizt saman innflutningur á fatnaði og heimilistækjum.

Fyrstu fjóra mánuði ársins var vöruskiptajöfnuðurinn hagstæður um rúmlega tvo milljarða, en var óhagstæður um tæplega tvo milljarða króna á sama tíma í fyrra. Batinn milli ára nemur nærri fjórum milljörðum á fjórum mánuðum. Þetta felur í sér feiknarleg umskipti.

Aukinn sparnaður þjóðarinnar kemur vafalaust fram í minni skuldum heimilanna í landinu og aukinni fjárfestingu almennings í pappírum af ýmsu tagi. Þar með félli um sjálfa sig sú kenning Seðlabankans, að of hátt kaup fólks sé ein helzta undirrót vandræða í hagkerfinu.

Ekki á að skaða hagkerfið neitt, þótt fólk hafi meiri tekjur en Seðlabankanum finnst það eiga skilið, ef það notar tekjurnar til skynsamlegra fjárfestinga í stað þess að kaupa bíla, tízkuföt og óþörf heimilistæki í gríð og erg. Við slíkar aðstæður er bara betra, að kaup sé hátt.

Að baki aukins sparnaðar liggur vafalaust aukin óvissa og raunar holl óvissa um framvindu efnahagslífsins. Að undanförnu hafa þeir haft meiri áhrif, sem tala efnahagslífið niður, en hinir, sem tala það upp. Þetta er hin séríslenzka aðferð að hafa vatnið ýmist í ökkla eða eyra.

Þegar forsætisráðherra hafði árum saman náð góðum árangri í að tala efnahagslífið upp, endaði sú himnaför með því að raunveruleikinn náði í skottið á sýndarveruleikanum. Við gengislækkun og verðbólguskot náðu hinir eyrum fólks, sem sjá heimsenda í hverju horni.

Veruleikinn er milli öfganna. Krónan getur náð jafnvægi á nýjan leik og verðbólgan getur reynzt vera eitt skot, sem fjarar út. Það fer meðal annars eftir, hvernig haldið verður á spilunum á næstunni. Til þess þarf ríkisstjórnin að koma út úr sýndarveruleikanum.

Við þurfum að fara að svara áleitnum spurningum. Er til dæmis forsvaranlegt að reka hér á landi lélega þriðja heims mynt, þegar stórveldi leggja niður eigin mynt? Er forsvaranlegt að reka hér á landi lélega þriðja heims mynt, sem kostar nokkrar aukaprósentur í vöxtum?

Við þurfum líka að spyrja okkur, hvernig standi á, að erlendir aðilar vilja ekki fjárfesta hér á landi, ekki einu sinni í nýjum álverum. Erlendar fjárfestingar eru hér á landi ekki nema brot af því, sem tíðkast annars staðar á Vesturlöndum, þótt miðað sé við íbúafjölda.

Við þurfum að spyrja okkur, hvort slíkar aðstæður séu heppilegar til að fara að reyna að ryksuga allt finnanlegt fjármagn í landinu til að borga fyrir álver á Reyðarfirði, sem útlendingar vilja ekki kosta. Hvernig á þá að fjármagna uppbyggingu atvinnuvega framtíðarinnar?

Við þurfum að komast úr gildrunni, sem felst í séríslenzkum aðferðum við rekstur efnahagslífsins. Við þurfum að losna við leifar sósíalismans, meðal annars eignarhald og ábyrgðir ríkisins í efnahagslífinu, svo og frumkvæði þess í gæluverkefnum á borð við stóriðju.

Við þurfum að læra af smáþjóðum Evrópu, sem líður vel í stórum efnahagsbandalögum og reka suma af öflugustu bönkum og fjármálafyrirtækjum heims, þótt þær hafi ekki eigin mynt. Þeim gengur vel, af því að þær eru ekki að rembast við sérþjóðleg atriði í efnahagnum.

Þegar við losnum úr gildru sérstöðunnar, minnka sveiflur, verðbólga hjaðnar og peningar fæðast, sem nýtast okkur framhjá sérþörfum gæludýra ríkisins.

Jónas Kristjánsson

DV