Naustið, Rauðará

Veitingar

Ferðamannagildrur
Naustið og Rauðará hafa batnað frá því fyrir þremur árum, þegar ég kom þar síðast. Enn eru þetta dýrar ferðamannagildrur, sem þykjast vera fínar, en eru ekki lengur fáránleg veitingahús. Maturinn er ætur, þjónustan er kammó og innréttingarnar skemmtilegar. En mér mundi seint detta í hug að borga 5.000 krónur á mann fyrir þríréttað með kaffi á þessum stöðum, ef ég mætti ráða ferð.

Úr frysti í örbylgju
Þrátt fyrir heitið er Naustið ekki sjávarréttahús og býður engan fisk dagsins. Stórir humarhalar höfðu þurra bragðið, sem kemur í sjávarrétti, þegar þeir eru settir beint úr frysti í örbylgjuofn. Þetta varð enn ljósara, þegar pönnusteikti karfinn kom skraufaþurr á borðið. Laxakæfa og kaldur lax var hvort tveggja bragðlaust, en kryddhjúpaður saltfiskur var útvatnaður og frambærilegur. Þetta er ekki eldhús safaríks matar.

Firnalangur og forn
Vandræði eldhússins verða strax ljós af firnalöngum matseðli í fornum stíl með átján forréttum og kvarthundrað aðalréttum. Lítið virðist vera um Íslendinga í Nausti, en ferðamenn slæðast inn og telja líklega, að matreiðsla sjávarrétta eigi að vera svona á Íslandi. Þeir fá þunnar pappírsþurrkur og hauga af stöðluðu meðlæti, sem flýtur í sósum og felur leifarnar af eðlisbragði hráefnanna. Í kaupbæti fá þeir aðgang að notalegum innréttingum.
(Naustið, Vesturgötu 6­8. sími: 551 7759)

Einnota viðskiptamenn
Rauðará hefur hvítt lín umfram Naustið og frambærilegri matreiðslu í sérgrein staðarins, nautasteikum. Þær má fá í ýmsum stærðum og eldunartímum. Rauðará er gróf í innréttingum og niðursoðnum hávaða. Þjónustan var samræðufús, en ekki mikið gefin fyrir að hella vatni í glös. Hingað slæðist nokkuð af heimamönnum, sem eru vanir sjoppum við þjóðveg eitt, en flestir viðskiptamennirnir eru þó ferðamenn, sem eru einota, hafa aldrei komið hér áður og munu aldrei koma aftur.

Grásteikt lambakjöt
Nákvæmnin í nautapiparsteikinni skilaði sér ekki yfir í lambahryggvöðvann, sem kom grásteiktur á borðið, þótt beðið væri um hann léttsteiktan (rare). Reyktur lundi var ágætur forréttur, en salatdiskur hússins var að mestu leyti einhæft jöklasalat. Meðlæti aðalrétta var staðlað, bökuð kartafla og léttsteikt grænmeti, sem jóðlaði í sætri sósu. Sykur var of mikið notaður við matreiðsluna, eins og raunar víðar hér á landi. Enginn munur var á venjulegu lambakjöti og svokölluðu ítalskt krydduðu, enda skortir metnað í eldhúsinu.
(Rauðará, Rauðarárstíg 37, sími: 562 6766)

Jónas Kristjánsson

DV