Vanmetin veitingahús

Veitingar

Vanmetin veitingahús
Þrír Frakkar við Óðinsgötu er eina úrvalsveitingahúsið á höfuðborgarsvæðinu, sem hefur slegið svo rækilega í gegn, að það er fullt út úr dyrum hádegis og kvölds alla daga vikunnar. Önnur úrvalshús búa oft við eyður á virkum dögum og bezta veitingahúsið treystir sér jafnvel ekki til að hafa opið hádegis. Þrátt fyrir ferðamenn er markaðurinn of lítill fyrir fimmtíu veitingahús með þjónustu og matargestir rata ekki endilega inn á tuttugu beztu staðina. Skyndibitastaðir taka svo auðvitað sinn toll.

Hótel Holt og Kínahúsið
Þegar ég tala um góð veitingahús, hef ég í huga metnaðinn, sem lýsir sér í verðlagi staðarins. Þannig get ég í sömu andrá sagt, að Hótel Holt við Bergstaðastræti og Kínahúsið við Lækjargötu séu vanmetin veitingahús, þótt þau hafi gerólíkt verðlag. Þau eru úrvalsstaðir, hvort með sínum hætti og hvort með sínu verðlagi og eiga það sameiginlegt, að vera oft ekki fullsetin í miðri viku, Holtið í hádeginu og Kínahúsið að kvöldi. Í erlendum stórborgum væru biðraðir á báðum stöðum, sem mundi auðvitað auðvelda þeim að halda uppi metnaði.

Tveir fiskar og Galileo
Ný veitingahús eiga oft erfitt með hasla sér völl, ekki sízt ef þau leggja fremur áherzlu á innri gæði en ytri markaðssetningu og töffaraskap ímyndartízkunnar. Þannig er enn sparlega setinn bekkurinn í ágætu fiskréttahúsi, Tveimur fiskum við Tryggvagötu og á spánnýjum Ítalíustað, Galileo við Ingólfstorg, sem slær við hinum, sem fyrir eru. Þessir staðir hafa fjárfest í gæðum frekar en stælum og eru því lengi að síazt inn í vitund áhugafólks um heimsóknir á veitingahús með þjónustu. Ágætum Sticks ‘n Sushi hefur gengið heldur betur að ryðja sér til rúms, enda er hann töluvert sér á parti.

Sommelier og Humarhúsið
Ef til vill er hugtakið vanmetinn teygt of langt til að láta það ná yfir tvo staði, sem væru upppantaðir margar vikur fram í tímann, ef þeir væru í stórborgarmiðju. Sommelier við Hverfisgötu og Humarhúsið við Amtmannsstíg eru oft vel setnir, einkum um helgar, en stundum má sjá þar eyður í miðri viku og Sommelier er harðlæstur í hádeginu. Með Hótel Holti og Tjörninni við Templarasund eru þetta þeir fjórir staðir í Reykjavík, sem helzt halda heiðri matargerðarlistar á lofti, en Tjörninni einni þeirra hefur tekizt að þétta aðsóknina nógu mikið til að falla ekki lengur undir hugtakið vanmetinn.

Argentína og Indíafélagið
Fleiri ágæt veitingahús af ólíkum toga eiga öll það sameiginlegt, að þau hefðu gott af meiri aðsókn. Stundum er eyðilegt á Argentínu eða í Austur-Indíafélaginu. Utan ferðamennavertíðarinnar er stundum fátt um manninn í Lækjarbrekku og Pottinum & pönnunni. Creole Mex lagði beinlínis upp laupana um daginn eftir ágæta rispu í matargerðarlist. Á sama tíma er töluverður slæðingur af fólki á matstöðum, sem fátt hafa fram að færa, nema helzt stæla og sjónhverfingar.

Jónas Kristjánsson

DV