Brotalöm er í einum af fimm hornsteinum vestræns lýðræðis hér á landi. Þótt þættir á borð við kosningar, mannréttindi, valddreifingu og gegnsæi séu með nokkrum undantekningum í þolanlegu lagi hér á landi, fer því fjarri, að sómasamlega sé haldið á lögum og rétti.
Stofnanir ríkisvaldsins tryggja ekki öryggi borgaranna nægilega vel. Dómar yfir ofbeldishneigðum síbrotamönnum eru vægir eins og ótal dæmi sanna. Nýlegur þriggja ára dómur í óvenjulega grófu ofbeldismáli er ávísun á meira af sama ofbeldi eftir skamman tíma.
Umræðu um væga dóma er drepið á dreif með deilu um, hvort fangelsisdómar eigi að vera uppeldi eða hefnd. Þeir hafa í rauninni hvorugt hlutverkið. Fangelsisdómum er ætlað að losa þjóðfélagið við hættulega menn, suma um tíma, meðan þeir ná áttum, en aðra ævilangt.
Tilgangslaust er að reyna að ala síbrotamenn til betri hegðunar, jafnvel þótt fangelsin væru rekin sem slíkar stofnanir með ærnum kostnaði. Fólk á hins vegar þá kröfu á hendur ríkinu, að það sjái um, að hættulega ofbeldishneigðir síbrotamenn verði ekki á vegi þess.
Vandinn er sumpart, að dómarar beita oft lægri kanti svigrúmsins, sem þeir hafa. Ennfremur hafa þeir tilhneigingu til að leggja ekki saman brot, þegar þeir dæma síbrotamenn, heldur veita þeim magnafslátt. Í færri tilvikum hefur Alþingi sett dómurum of þröngt svigrúm.
Alþingi þarf að fara yfir gildandi ákvæði laga um þyngd refsinga og færa ofar svigrúmið í lengd dóma í sumum tilvikum, einkum í síbrotum. Jafnframt þarf að mennta starfandi dómara betur til að fá þá til að skilja, að svigrúm í lögum er ekki aðeins sett til að nota neðri kantinn.
Framkvæmdavaldið á sinn þátt í öryggisleysi manna. Það rekur svo fámenna og lélega löggæzlu, að hún ein slíkra stofnana á Vesturlöndum getur ekki varið miðbæ höfuðborgarinnar fyrir drukknum skríl. Slíkt ástand er hvorki í London né New York, París né Amsterdam.
Virðingarleysi framkvæmdavaldsins fyrir limum og eignum fólk er slíkt, að nú er í alvöru ráðgert að halda hér að ári í einum rykk tvo fundi óvinsælla stofnana, sem eru samkvæmt reynslunni til þess fallnir að draga að sér athygli ofsafenginna mótmælenda af ýmsu tagi.
Framkvæmdavaldið rýrir á ýmsan annan hátt stöðu laga og réttar í landinu. Ríkið hefur lagt fram kröfur um bótalaust eignarnám í þinglýstum landeignum bænda víða um land. Slík árás á eignaréttinn væri óhugsandi í nokkru ríki, sem flokkast til lýðræðisríkja jarðar.
Sem betur fer hafa borgarar landsins öðlast mikilvægan búhnykk lýðræðis í aðgangi að yfirdómstólum úti í heimi. Þegar héraðsdómarar og jafnvel hæstaréttardómarar ganga erinda ríkisvaldsins gegn fólki, eiga menn kost á að kæra til Strassborgar, Bruxelles eða Haag.
Þess vegna nær ásælni ríkisins í eigur bænda ekki fram að ganga. Þess vegna hefur ríkið á ýmsum sviðum orðið að draga saman seglin í yfirgangi gegn borgurum landsins. Þess vegna hefur réttarstaða Íslendinga batnað og þessi fimmti hornsteinn lýðræðisins styrkzt að mun.
Réttarbótin að utan virkar aðeins í borgaralegum málum, þar sem einstaklingar eða samtök einstaklinga geta sótt rétt sinn til útlanda. Hún nær ekki til sakamála. Engin leið er fyrir fólk að kæra ríkið til Strassborgar, Bruxelles eða Haag fyrir að láta síbrotamenn ganga lausa.
Þessi vandamál eru margrædd. Endurbætur þurfa ekki að vera flóknar. Ráðamenn láta eigi að síður reka á reiðanum og efna í mesta lagi til enn eins fundarins.
Jónas Kristjánsson
DV