Virkjað verður

Greinar

Flest bendir til, að virkjað verði við Kárahnjúka. Ríkisstjórnin mun hafna málefnalegri niðurstöðu Skipulagsstofnunar “af því bara” og leggja málið fyrir Alþingi á komandi vetri. Þar verður virkjunin samþykkt fyrir jól með öruggum meirihluta stjórnarflokkanna.

Þetta er eðlileg málsmeðferð í lýðræðisríki. Kjörnir fulltrúar taka endanlega ákvörðun eftir mikla umræðu í þjóðfélaginu. Þeir þurfa ekki að taka tillit til málefnalegra sjónarmiða að hætti embættismanna. Þeir hafa pólitískt vald til að taka ranga ákvörðun, sem öðlast gildi.

Steinarnir í vegi virkjunarinnar eru annars eðlis og snúa fremur að fjármögnun álversins á Reyðarfirði. Ekki hefur reynzt kleift að fá erlendan ofurfjárfesti til að kosta verið. Niðurstaða Skipulagsstofnunar verður ekki til að efla áhuga manna á að taka þátt í harmleiknum.

Norsk Hydro vill bara eiga lítinn hluta í álverinu, en ætlar sér eigi að síður að hafa sömu viðskiptaeinokun og Alusuisse hefur gagnvart Ísal. Gróði Norsk Hydro verður til með því að sitja beggja vegna borðsins, selja Reyðaráli allt hráefnið og kaupa síðan allt álið frá því.

Mjög er horft til lífeyrissjóðanna. Þar sitja menn, er girnast persónulegar tekjur og persónuleg völd af setu í stjórnum fyrirtækja og hafa reynslu af því að láta sjóðina kaupa handa sér stjórnarsæti. Þeir munu eftir nokkurt hik fórna hagsmunum sjóðfélaganna fyrir sína eigin.

Lífeyrissjóðir eiga að festa peninga sína sem víðast til að tryggja öryggi sjóðfélaga. Heppilegast er að fjárfesta í erlendum safnsjóðum til að útiloka íslenzkar sveiflur. Heimskulegast er að fjárfesta mikið í stökum fyrirtækjum, því að það eykur áhættu sjóðfélaga of mikið.

Stjórnarmenn lífeyrissjóða geta litið fram hjá slíkum málefnalegum sjónarmiðum alveg eins og íslenzkir stjórnmálamenn geta litið fram hjá málefnalegri úttekt Skipulagsstofnunar. Lýðræðið stendur hvorki né fellur af völdum rangra ákvarðana, sem teknar eru í nafni þess.

Ef við gerum ráð fyrir, að hægt verði að kría saman peninga í Reyðarál, er fátt, sem getur komið í veg fyrir Kárahnjúkavirkjun. Ekki er að vænta umhverfisstuðnings norskra stjórnvalda sem aðaleiganda Norsk Hydro, því að áhugi er lítill í Noregi á íslenzku umhverfi.

Ekki verður horft fram hjá þeirri staðreynd, að drjúgur meirihluti kjósenda ríkisstjórnarflokkanna tveggja á Íslandi er fylgjandi Kárahnjúkavirkjun. Ríkisstjórnin hefur því umboð fylgismanna sinna til að halda áfram með málið meðan þessi stuðningur grasrótarinnar bilar ekki.

Komið hefur í ljós, að ítarleg greinargerð og niðurstaða Skipulagsstofnunar hefur ekki magnað andstöðuna við Kárahnjúkavirkjun í þeim mæli, sem búast hefði mátt við. Umhverfissjónarmið hafa ekki átt eins greiðan aðgang að hjörtum Íslendinga og ætla mætti af umræðunni.

Málið snýst ekki um val milli efnahags og umhverfis. Leidd hafa verið sterk rök að því, að virkjun og álver séu þjóðhagslega óhagkvæm, beini fjármagni og kröftum landsmanna inn á gamaldags brautir, sem hamli gegn sókn þjóðarinnar til atvinnuhátta framtíðarinnar.

Málið snýst frekar um gamla nítjándu aldar drauminn frá upphafi iðnvæðingarinnar, þegar menn vildu beizla náttúruna með valdi og knýja hana til fylgilags. Þetta er svipuð ranghugsun og felst í tröllslegum mannvirkjum, sem risið hafa í hlíðum yfir snjóflóðaplássum.

Hálf þjóðin er enn þeirrar skoðunar, að lifibrauðið felist í baráttu við náttúruöflin, og hefur ekki áttað sig á, að tækifæri nútímans eru allt önnur. Því verður virkjað.

Jónas Kristjánsson

DV