Tveir eitraðir vinir

Greinar

Sértrúarflokkur Wahhabíta er nánast einráður í hópi þeirra hryðjuverkamanna, sem beina spjótum sínum að Bandaríkjunum. Þessi þrönga og ofsafengna sértrú af meiði Íslams ræður ríkjum á Arabíuskaga, bæði í Sádi-Arabíu og Sameinuðu furstadæmunum.

Osama bin Laden er Wahhabíti frá Sádi-Arabíu og sama er að segja um allan þorra 200 manna nánustu hirðar hans í Afganistan. Sveitir hans fyllast af ungum mönnum, sem hafa lært í trúarskólum, er konungsættin í Sádi-Arabíu hefur komið á fót víðs vegar um heim múslima.

Í þessum sértrúarskólum Wahhabíta er ungum og óhörðnuðum mönnum kennt að hata efnishyggju Vesturlanda skefjalaust. Úr þessum skólum kemur endalaust hráefni í sjálfsmorðsveitir á borð við þær, sem réðust á World Trade Center og Pentagon 11. september.

Konungsættin í Sádi-Arabíu er ein helzta rótin að hryðjuverkum ofsafenginna múslima á Vesturlöndum. Hún rekur eitt afturhaldsamasta ríki heims á grundvelli sértrúar sinnar og notar hluta olíuauðsins til að breiða út sértrú Wahhabíta, sem ræktar hryðjuverkamenn.

Vesturlönd og einkum þó Bandaríkin hafa eigi að síður stutt konungsætt Sádi-Arabíu, af því að hún ræður yfir umtalsverðum hluta af olíubirgðum heimsins. Ættin segist raunar vera vinur Vesturlanda og studdi þau í stríði þeirra við keppinauta sína í Bagdað í Írak.

Ef væntanlegar aðgerðir Bandaríkjanna gegn hryðjuverkamönnum eiga að ná árangri, hljóta þær að beinast gegn konungsætt Sádi-Arabíu. Í skjóli herveldis síns geta Bandaríkin krafizt þess, að ættin láti samstundis af stuðningi sínum við undirróður gegn Vesturlöndum.

Hin helzta rótin að hryðjuverkum ofsafenginna múslima á Vesturlöndum er langvinn reiði almennra múslima í garð Bandaríkjanna vegna hins skefjalausa stuðnings þeirra við Ísraelsríki, þrátt fyrir sífelld hryðjuverk þess í garð hernuminna Palestínumanna.

Ef hryðjuverk eru mæld í mannslífum, er Ísraelsríki sex sinnum athafnameira á því sviði en samanlagðir Palestínumenn. Bandaríkin líta nánast alveg framhjá þessu misvægi, þótt hryðjuverk Ísraels séu greinileg og óumdeilanleg brot á fjölþjóðasamningum.

Bandaríkin og raunar Vesturlönd í heild eru réttilega sökuð um tvöfalt siðgæði í viðbrögðum við gegndarlausum yfirgangi Ísraels í hernuminni Palestínu. Þetta sárnar múslimum um allan heim og skapar jarðveg fyrir ofsatrúarskóla konungsættarinnar í Sádi-Arabíu.

Ef væntanlegar aðgerðir Bandaríkjanna gegn hryðjuverkamönnum eiga að ná árangri, hljóta þær að beinast gegn Ísraelsríki. Í krafti árlegs milljarðastuðnings síns geta Bandaríkin krafizt þess, að Ísrael láti samstundis af landnámi í Palestínu og samþykki eftirlitssveitir.

Orsakir hryðjuverkaöldunnar eru fleiri en Sádi-Arabía og Ísrael, en ekki eins áþreifanlegar og viðráðanlegar. Það er til dæmis athyglisvert, að nánast öll ríki múslima eru spillt lögregluríki, sem ekki veita íbúum sínum sömu framfarir og ríki Vesturlanda veita borgurum sínum.

En Sádi-Arabía og Ísrael skera í augu, þegar leitað er viðráðanlegra orsaka hryðuverka Osama Bin Laden og annarra af hans sauðahúsi. Því er athyglisvert, að þessi tvö ríki skuli einmitt vera talin í stuðningshópnum við baráttu Bandaríkjanna gegn hryðjuverkum.

Bandaríkin þurfa enga óvini, ef þau hafa ríki á borð við Sádi-Arabíu og Ísrael að vinum. Þar hafa Bandaríkin trygga uppsprettu ógna við öryggi sitt, tvo eitraða vini.

Jónas Kristjánsson

DV