Vondur félagsskapur

Greinar

Ýmsir leiðtogar í Evrópu hafa beðið við símann síðan fulltrúar Bandaríkjanna sögðu þeim á fundi Atlantshafsbandalagsins fyrir viku, að þeir “mundu hringja, þegar þeir þyrftu aðstoð”. En Bandaríkin hafa bara alls ekki hringt, því að þau þurfa ekki evrópska aðstoð.

Bretar fá til málamynda að vera með í fyrirhuguðum átökum við fylgismenn Osama bin Ladens og talibana í Afganistan. Flestir aðrir eru fegnir. Frakkar naga hins vegar neglurnar, því að þeim er annt um að fá að vera með í fremstu víglínu, er í harðbakkann slær.

Bandaríkjastjórn hefur teflt skákina sem afleiðingu árásar á Bandaríkin, en ekki árásar á vestræn gildi í nútímanum. Hún hefur einangrað vandann við fylgismenn Osama bin Ladens, sem hún hyggst klófesta eða drepa, og talibana, sem hún hyggst reka frá völdum.

Til að ná markmiðunum eru Bandaríkin að byggja upp svæðisbandalag við nágrannaríki Afganistans, þar sem hún þarf aðstöðu til undirbúnings átökunum. Lykilríki í þessu svæðisbandalagi eru Pakistan, Úsbekistan og Sádi-Arabía, svarnir andstæðingar vestrænna gilda.

Fyrst ber frægast að telja Pakistan, sem ræktaði talibana í Afganistan fyrir bandaríska peninga til að siga þeim á sovézka hernámsliðið. Pakistan er núna undir stjórn herforingjans Musharrafs, sem skipulagði í hittifyrra glæfralega og misheppnaða innrás í Kasmír.

Musharraf þorir ekki annað en að hlýða Bandaríkjunum til að firra sig reiði þeirra. Auk þess hyggst hann nota bandalagið til að bæta stöðu sína til frekari hryðjuverka í Indlandi, svo sem fram kom á mánudaginn, þegar 38 manns voru drepnir í árás á þinghúsið í Kasmír.

Hryðjuverkið framdi hópurinn Jaish-e-Mohammed, sem kostaður er af ríkissjóði Pakistans. Af tillitssemi við Musharraf er hópurinn ekki á skrá Bandaríkjanna yfir hryðjuverkasamtök, þótt Indverjar hafi margsinnis bent á, að hann eigi að vera þar ofarlega á blaði.

Annar miður fýsilegur bandamaður Bandaríkjanna er Úsbekistan, þar sem harðstjórinn Karimov gengur lengst allra valdhafa arfaríkja Sovétríkjanna í stjórnarháttum, sem stríða gegn vestrænum gildum. Með trúarofsóknum gegn múslímum framleiðir hann hryðjuverkamenn.

Karimov gengur fagnandi til samstarfs við Bandaríkin, því að hann sér, að nú fær hann frið til að festa sig enn frekar í sessi með enn harðari ofsóknum gegn íbúum landsins. Hann sér fram á að þurfa ekki að sæta sömu örlögum og Slobodan Milosevic sætir nú í Haag.

Þriðji og hættulegasti bandamaður Bandaríkjanna er konungsætt Sádi-Arabíu, sem hefur leynt og ljóst framleitt hryðjuverkamenn í ofsatrúarskólum Wahhabíta og lætur peninga renna í stríðum í straumum til þeirra hryðjuverkamanna, sem mest og harðast hata vestrið.

Með hjálp bandamanna á borð við Pakistan, Úsbekistan og Sádi-Arabíu mun Bandaríkjunum takast að koma fram réttlátum hefndum á Osama bin Laden og talibönum. En menn mega alls ekki halda, að það verði í leiðinni neinn sigur fyrir vestræn gildi í heiminum.

Til marks um það má hafa, að Bandaríkjastjórn hefur beðið emírinn í Katar að láta ritskoða sjónvarpsstöðina al-Jazeera, sem er eini frjálsi fjölmiðillinn á Arabíuskaga og nýtur virðingar um allan heim fyrir harðsótta fréttaöflun, til dæmis af ýmsum óhæfuverkum talibana.

Stundarhagur er af bandalagi við hryðjuverkamenn gegn hryðjuverkamönnum, en að unnum sigri verður staða vestrænna gilda í heiminum lakari en áður.

Jónas Kristjánsson

DV