Vestrið er bezt

Greinar

Hryðjuverkin í Bandaríkjunum og eftirmál þeirra hafa hleypt nýju lífi í umræðuna um, hvort Samuel Huntington eða Francis Fukuyama hafi rétt fyrir sér. Hefur vestrið sigrað heiminn eða er í uppsiglingu meginbarátta milli menningarheima? Rétt svör finnast mitt á milli.

Fyrir áratug var mikið rætt um, að svonefnd austræn gildi gætu att til kapps við vestræn gildi í nútímanum. Velgengni ríkja og þjóða í Suðaustur-Asíu var talin stafa af fjölskylduhyggju í stað einstaklingshyggju og hlýðni við yfirboðara í stað gagnrýninnar hugsunar.

Þessi umræða er steindauð. Komið hefur í ljós, að fjölskylduhyggja og undirgefni voru ávísanir á spillingu, sem hefur dregið vígtennur úr austræna undrinu. Japan hefur sokkið í varanlega kreppu og önnur ríki á þeim slóðum hafa orðið fyrir miklum efnahagsáföllum.

Flest bendir til, að lykill að velgengni þjóða í nútímanum fari eftir áherzlu þeirra á hefðbundin vestræn gildi eins og þau birtast í mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, dreifingu valdsins og gegnsæi þess, aðskilnaði ríkis og kirkju, og eindreginni áherzlu á lög og rétt.

Flest bendir líka til, að hagsmunir og vilji almennings í öðrum heimshlutum hallist á sömu sveif, þótt yfirvöld hafi margt við vestrið að athuga. Yfirvöld rægja vestrið til að verja óhófleg völd sín. Þaðan er sprottin umræðan um, að vestrið sé að valta yfir aðra menningarheima.

Tímabært er orðið, að Vesturlönd hætti að vera feimin við að hafa áhrif í öðrum heimshlutum. Almenningur í þriðja heiminum vill vestræn áhrif og telur þau munu verða til að lyfta sér úr fátækt til bjargálna. Hin vestrænu gildi hafa almenna skírskotun til vona almennings.

Allt þetta bendir til, að Francis Fukuyama hafi rétt fyrir sér, hin vestrænu gildi muni dreifast um allan heim og efla reisn almennings í þriðja heiminum. En til er ein undantekning, sem bendir til, að sitthvað sé líka skynsamlegt í því, sem Samuel Huntington hefur sagt.

Þessi undantekning er menningarheimur íslams. Þar er trú og ríki samofið. Þar er jafnrétti heft með skírskotun til helgra bóka. Þar er hvergi lýðræði, nema helzt í Tyrklandi. Þar eru litlar efnahagsframfarir, aðrar en þær, sem byggjast á þeirri heppni að eiga olíu í jörð.

Um leið er íslam ófriðlegasti menningarheimur jarðar. Á jöðrum hans eru flest átök í heiminum um þessar mundir. Íslam er greinilega vansæll menningarheimur, fullur öfundar og gremju í garð vestursins, sem hefur tekið við af íslam sem forustuafl mannkyns.

Þetta hefur verið feimnismál, en þarfnast umræðu. Það er engin tilviljun, að allur þorri hryðjuverka, sem beinist gegn vestrinu, er framinn af ofsatrúuðum áhangendum Múhameðs spámanns. Árásirnar 11. september hafa vakið vestrið til vitundar um þessa óþægilegu staðreynd.

Tímabært er, að ríkin, sem virða vestræn gildi mannréttinda, dreifingar valds og gegnsæis þess, aðskilnað ríkis og kirkju og áherzlu á lög og rétt, geri með sér bandalag um að efla áhrif þessara hugmynda í heiminum og hætti bandalögum við einræðisherra og harðstjóra.

Vestrinu ber að hætta stuðningi við ráðamenn ríkja á borð við Sádi-Arabíu, Pakistan, norðurbandalagið í Afganistan, Úsbekistan og Jórdaníu, svo að nokkur dæmi séu nefnd um aðila, sem hafa komið sér í mjúkinn hjá vestrinu til að halda völdum yfir langsoltnum lýð.

Í staðinn ber vestrinu að gera bandalag við lýðræðisöfl þriðja heimsins um útbreiðslu lýðræðis, svo að reisn, hagur og frelsi almennings eflist um allan heim.

Jónas Kristjánsson

DV