Samtök um lýðræði

Greinar

Þótt flestum þyki nóg til af fjölþjóðasamtökum, vantar okkur ein í viðbót. Ekki eru til nein samtök lýðræðisríkja um lýðræðið sjálft, verndun þess og eflingu í heiminum. Lýðræðisríkin þurfa slík samtök til að tryggja öryggi sitt, bæta efnahag sinn og efla milliríkjaviðskipti.

Þetta er sá minnihluti ríkja, sem fer eftir mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, býr við dreifingu valdsins og gegnsæi þess, leggur áherzlu á lög og rétt, og stundar aðskilnað ríkis og trúarbragða. Þetta er sá minnihluti ríkja, þar sem hinn óbreytti borgari er í öndvegi.

Slík ríki eru traust, af því að þau hafa innri öryggisventla í lagi. Farið er eftir leikreglum í viðskiptum og öðrum samskiptum. Þau eru í senn traust inn á við og út á við. Viðskipti milli slíkra ríkja eru traustari en önnur viðskipti, af því að þau virða rétt útlendra aðila.

Þegar lýðræðisríkjum fjölgar, stækkar svigrúmið, þar sem ríki fara ekki í stríð við hvert annað og stunda ekki hryðjuverk í ríkjum hvers annars. Þá stækkar svigrúmið til auðsöfnunar allra slíkra ríkja af völdum aukinnar sérhæfingar þeirra í framleiðslu og viðskiptum.

Sjónarmiðin að baki lýðræðisins eflast, ef slík ríki gera með sér samtök um að koma fram sem heild á alþjóðlegum vettvangi, til dæmis hjá Sameinuðu þjóðunum. Þar verður erfitt að andmæla, þegar einum rómi tala þau ríki, sem ein fara eftir mannréttindareglum samtakanna.

Mikilvægur þáttur slíks samstarfs er að koma sér saman um að styðja lýðræðisöfl í öðrum löndum, svo að svigrúm lýðræðis í heiminum stækki smám saman. Það felur um leið í sér, að bönnuð eru tímabundin hagkvæmnisbandalög þessara ríkja við andstæðinga lýðræðis.

Hafnað verður bandalögum, sem hefna sín um síðir, svo sem gamalkunnu bandalagi milli Bandaríkjanna og hryðjuverkaríkisins Pakistans um að koma Rússum frá Afganistan með því að koma á fót sveitum ofstækishópa talibana, menntuðum í sértrúarskólum Sádi-Arabíu.

Einnig verður hafnað bandalögum við aðila, sem grafa undan innviðum lýðræðisins með eiturlyfjasölu. Þar eru einna athafnasamastir stríðsherrar svokallaðs Norðurbandalags í Afganistan, sem Bandaríkin eru nú að nota til að kveða niður sinn eigin uppvakning, talibana.

Öll hagkvæmnisbandalög af slíku tagi hefna sín um síðir. Þau gefa stríðsherrum, herforingjum, lögreglustjórum og ýmsu öðru illþýði í þriðja heiminum tækifæri til að mjólka fjárhirzlur Vesturlanda og hindra eða tefja valdatöku lýðræðissinnaðra afla í þriðja heiminum.

Lýðræðisbandalagið ætti að nota þróunarfé sitt til að efla lýðræðislega þætti í öðrum ríkjum, svo að þau geti náð sér í aðgöngumiða að lýðræðisbandalaginu. Sérstaka áherzlu þarf að leggja á ríki, sem ramba á mörkum lýðræðis og geta með lagi þróazt í rétta átt.

Í þeim hópi er Tyrkland, sem þarf að efla mannréttindi minnihlutahópa og draga úr áhrifum hersins. Einnig Indland, sem þarf að draga úr spillingu ríkisafskipta og efla rétt lægstu stétta samfélagsins. Ennfremur Rússland, sem þarf að efla rétt minnihlutahópa og stöðva mafíuna.

Þetta eru fjölmenn ríki, sem eru komin langleiðina í faðm lýðræðisins. Ef þau sogast áfram í átt til lýðræðishefða Vesturlanda, stendur lýðræðið föstum fótum í fleiri menningarheimum en áður og er betur búið til að setja fjöldamorðingjum heimsins stólinn fyrir dyrnar.

Í fjölskrúðugri flóru fjölþjóðasamtaka vantar okkur samtök, sem hafa það eitt að markmiði að treysta lýðræði í sessi og víkka áhrifasvæði þess í heiminum.

Jónas Kristjánsson

DV