Ríkið selji fíkniefni

Greinar

Þegar ríkið tekur sölu ólöglegra fíkniefna af svarta markaðinum, mun neyzlan aukast. Reynslan úr áfenginu sýnir, að lögleiðing eykur neyzlu. Ríkið þarf einnig að lækka verðið til að losna við svarta markaðinn, og reynslan úr áfenginu sýnir, að verðlækkun eykur neyzlu.

Reynslan úr áfenginu sýnir okkur líka, að fleiri verða fíklar, þegar ólögleg fíkniefni verða lögleg og þegar verð þeirra lækkar. Þetta er raunar eini umtalsverði gallinn við lögleiðingu fíkniefna. Þennan galla þarf að meta á móti ótvíræðum kostum lögleiðingar fíkniefna.

Þegar ríkið flytur verzlun þessara fíkniefna í búðirnar, sem selja lögleg fíkniefni, það er að segja lyf og áfengi, hrynur veldi skipulagðra glæpaflokka, sem stjórna innflutningi, heildsölu og dreifingu ólöglegra fíkniefna. Þeir geta ekki lengur grafið undan samfélaginu.

Núna eru þessir glæpaflokkar ríki í ríkinu. Þeir innleiða siðareglur, sem eru allt aðrar en áður hafa gilt í þjóðfélaginu. Þeir gera samfélagið ofbeldishneigðara, mútuþægnara og þögulla. Þeir hafa handrukkara og láta fíkla fremja lögbrot til að fjármagna neyzluna.

Mörg dæmi hafa birzt í fréttum hér á landi. Tollvörður var laminn sundur og saman fyrir hnýsni. Foreldrar fíkils sættu ógnunum og barsmíðum. Deilur glæpaflokka um áhrifasvæði leiddu til skotbardaga. Smám saman breytist Ísland í harðan fíkniefnaheim að erlendri fyrirmynd.

Lífsstíll auðugra eiturlyfjabaróna er farinn að höfða til óharðnaðra unglinga, sem sjá þar þægilega leið frá þrúgandi færiböndum iðnvæðingarinnar. Þannig eru fyrirmyndir fíkniefnaheimsins farnar að keppa við æskilegar fyrirmyndir hins hefðbundna þjóðfélags.

Lögreglan er gagnslaus í baráttunni gegn ófögnuðinum. Hún hefur ekki reynzt geta rakið feril efna frá neytendum til seljenda, að minnsta kosti ekki svo, að það leiði til ákæru. Hér á landi finnast fíkniefni nær eingöngu í innflutningi í litlum mæli. Neyzlan vex og vex.

Fyrr eða síðar mun þjóðfélagið gera uppreisn gegn ólöglegri fíkniefnasölu. Eina virka vopnið í uppreisninni felst í að taka lifibrauðið af eiturlyfjabarónum með því að lögleiða fíkniefnin og flytja sölu þeirra inn í áfengisverzlanir eða lyfjabúðir, þar sem seld eru lögleg fíkniefni.

Hagnað ríkisins af yfirtöku markaðarins má nota til að efla meðferðarúrræði fyrir þá, sem ánetjast fíkniefnum. Svarti markaðurinn leggur ekki krónu af mörkum til slíkra mála, en ríkið getur hæglega látið viðbótartekjurnar renna til meðferðar fíkniefnavandans.

Þeim fjölgar hér á landi, sem vilja láta lögleiða fíkniefni. Málið er meira að segja komið í umræðu á landsfundum stjórnmálaflokka. Kennir þar áhrifa frá útlöndum, þar sem slíkar kenningar njóta aukins stuðnings, meðal annars vegna röksemda tímaritsins Economist.

Fíkniefnabarónarnir munu berjast gegn þessum sjónarmiðum, sem ógna auði þeirra og völdum. Þeir munu fjármagna andóf og róg í garð þeirra, sem mæla með lögleiðingu fíkniefna. Þeir munu kaupa stjórnmálamenn og fjölmiðlunga til fylgis við óbreyttan markað svartan.

Við þurfum að fylgjast vel með tilraunum ýmissa þjóða til að feta sig yfir í lögleiðingu fíkniefna, einkum Hollendinga, sem stigu fyrstu skrefin, og Svisslendinga, sem hafa farið í humátt á eftir. Með því að læra af öðrum, getum við mildað hliðarverkanir af lögleiðingunni.

Við munum feta sömu slóð, því að samfélagið mun ekki sætta sig við, að hér hafa myndazt skipulagðir undirheimar, sem grafa undan innviðum þjóðfélagsins.

Jónas Kristjánsson

DV