Minna logið núna

Greinar

Talsmenn bandamanna í stríðinu í Afganistan fara gætilegar í fullyrðingum um rekstur stríðsins en forverar þeirra gerðu í Persaflóastríðinu og einkum þó í stríðinu í Kosovo, sem reyndist hafa verið nánast samfelld lygasaga af hálfu talsmanna Atlantshafsbandalagsins.

Eftir Persaflóastríðið voru uppi grunsemdir meðal stjórnenda fjölmiðla um, að þeir og notendur fjölmiðlanna hefðu verið hafðir að fífli. Um síðir kom í ljós, að myndskeið af árangri ýmissa flugskeyta, sem sýnd voru í sjónvarpi, voru í rauninni eins konar tölvuleikir.

Sjónvarpsstöðvar voru hins vegar svo uppteknar af árangursríkri blekkingu um yfirburði sína í lýsingum á “stríði í beinni útsendingu”, að þær létu hjá líða að læra af reynslunni. Fyrir bragðið féllu þær á bólakaf í svipaða gildru, þegar kom að styrjöldinni í Kosovo.

Eftir það stríð tóku ritstjórar vestrænna dagblaða sig saman um að rannsaka feril stríðsins og bera saman við fullyrðingar stríðsaðila. Niðurstaðan kom út í miklu riti, sem sýndi, að sannleikurinn skipti alls engu máli í fréttaflutningi stríðsaðila, þar á meðal bandamanna.

Ýmsar fréttastofur, útvarpsstöðvar og dagblöð höfðu fréttamenn á staðnum, sem sögðu allt aðra sögu en þá, sem Jamie Shea og aðrir gáfu daglega í aðalstöðvum Atlantshafsbandalagsins, vandlega þjálfaðir af spunameisturum leiðtoganna Tony Blair og Bill Clinton.

Bandaríkjastjórn virðist hafa dregið réttan lærdóm af hruni trausts fjölmiðla og notenda fjölmiðla á upplýsingum Atlantshafsbandalagsins um Kosovo. Talsmenn hennar fara mun varlegar en áður í fullyrðingar um gengi loftárásanna á Afganistan í einstökum atriðum.

Enda gera fjölmiðlar fullyrðingar bandalagsins ekki að sínum. Texti frétta er fullur af fyrirvörum á borð við: “að sögn” tilgreindra aðila. Dagblöð eru líka fljót að skjóta niður tilraunir spunameistara til að fljúga hátt, til dæmis í lýsingum á gildi fljúgandi matarpakka fyrir Afgana.

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, reyndi að skjóta upp þeirri kenningu, að talibanar byggðu afkomu sína á framleiðslu og sölu fíkniefna. Hann hætti því strax, þegar fjölmiðlar upplýstu, að sannleikurinn væri þveröfugur. Talibanar hafa raunar barizt gegn sölu fíkniefna.

Enn hafa þó fjölmiðlar tilhneigingu til að kaupa ódýrt fullyrðingar rekstraraðila stríðsins. Enn er talað um, að þetta sé styrjöld gegn hryðjuverkum almennt, þótt bandalagið hafi þróazt úr vestrænu bandalagi yfir í bandalag Bandaríkjanna við ýmsar hryðjuverkastjórnir.

Bandaríkjastjórn hefur reynt að stýra vitneskju manna um stríðið. Bandarískum sjónvarpsstöðvum er vansæmd af að hafa látið undan þrýstingi. Emírinn í Katar hefur meiri sóma, því að hann neitaði að hafa áhrif á mikilvægan fréttaflutning sjónvarpsstöðvarinnar al-Jazeera.

Hingað til hefur stríðið fyrst og fremst leitt hörmungar yfir saklausa. Hvorki er vitað um neitt mannfall í hópi liðsmanna Osama bin Ladens né liðsmanna talibana. Hins vegar hafa bandamenn drepið hundruð óbreyttra borgara og hrakið tugþúsundir þeirra á vergang.

Senn kann stríðið að beinast meira gegn raunverulegum glæpamönnum. Myndskeið af meintri næturárás fallhlífamanna á einar herbúðir talibana var þó ekki trúverðugt, enda sáust þar ræktuð tré í röðum. Að fenginni reynslu er rétt að taka það hóflega alvarlega.

Það er eðli trausts, að auðvelt er að glata því, en erfitt að endurheimta það. Því fær fólk sennilega réttari fréttir af stríðinu í Afganistan en undanförnum styrjöldum.

Jónas Kristjánsson

DV