“Negro” er enskt orð, sem bandarískir svertingjar vildu um langt árabil nota sem samheiti yfir sig. Þeir töldu það vera nokkurn veginn hlutlaust orð, sem ekki fæli í sér niðurlægingu, betra en orðið “black”. Samkvæmt þessu er vafasamt að telja orðið negri vera ókurteist.
Samt segir íslenzkur dómari, að “alkunna sé”, að enska orðið “negro” sé neikvætt, enda óski svertingjar, að önnur orð séu notuð. Dómarinn notar sjálfur orðið blökkumaður, þótt svertingjar hafi verið búnir að hafna orðinu “black” áður en þeir höfnuðu orðinu “negro”.
Spurningin er, hvort ekki sé rétt að kæra og dæma dómarann fyrir kynþáttahatur úr því að hann telur við hæfi að dæma varaformann Félags íslenzkra þjóðernissinna fyrir að nota orðið negri. Orðhengilsháttur að hætti dómarans er nefnilega ekki gott vegarnesti.
Í nýföllnum dómi er talið, að orðin “Afríkunegri með prik í hendi”, sem “nenni ekki að berja af sér flugurnar” séu niðrandi í garð svartra manna. Því beri varaformanni Félags íslenzkra þjóðernissinna að greiða 30.000 króna sekt fyrir að hafa notað þessi orð í blaðaviðtali.
Raunar er furðulegt, að ákæruvaldið og dómsvaldið séu að eyða tíma í að skipta sér af orðavali, sem dómarinn segir sjálfur, að séu “ekki gróf eða mjög alvarleg”. Ruglið er í samræmi við fáfræðina, sem dómarinn sýndi, þegar hann hætti sér út í tungumála-sagnfræði.
Ákæran og dómurinn byggjast að nokkru leyti á viðleitni sumra manna á Norðurlöndum til að skipta hugsunum í pólitískt viðurkenndar hugsanir og þær, sem ekki eru pólitískt viðurkenndar og hvetja menn til að nota eingöngu orð, sem viðurkennd eru af samfélaginu.
Þessi góðviljaða hreinsunarstefna í málnotkun er dæmigerð forsjárhyggja. Hún hefur stuðning af almennum hegningarlögum, sem banna fólki að hæðast að öðrum eða smána þá. Samkvæmt lagagreininni mætti og ætti að draga alla háðfugla og eftirhermur fyrir dóm.
Þessi vafasama grein hegningarlaganna er ættuð frá Norðurlöndum og er sem betur fer lítið notuð hér á landi. Samkvæmt henni mætti dæma dómarann sjálfan fyrir kynþátthatur út af orðinu svertingi, sem hann notaði í úrskurðinum, svo sem bent var á hér að ofan.
Óskorað hugsana- og tjáningarfrelsi er hornsteinn vestræns samfélags. Í skjóli þess hafa hugmyndir um stjórnmál og samfélag, tækni og vísindi fengið að þróast án forsjárhyggju að ofan. Í skjóli þess hafa vestrænar þjóðir risið til mannlegrar reisnar og velsældar.
Þetta frelsi felur í sér, að enginn getur ákveðið fyrir aðra, hvaða hugsanir og skoðanir séu nothæfar og hverjar séu það ekki. Það, sem pólitískt viðurkennt fólk í dag telur vera óviðeigandi orðalag, getur verið viðeigandi á morgun. Forsjárhyggjumenn eru alls ekki alvitrir.
Þegar góðviljuð forsjárhyggja og hrein lýðræðishyggja stangast á, ber okkur að taka lýðræðið fram yfir. Við eigum að taka úr notkun lagagreinar, sem takmarka svigrúm manna til að tjá sig á hvaða hátt, sem þeir vilja, enda eru þær aðeins notaðar með höppum og glöppum.
Ef 233. grein hegningarlaga væri almennt notuð, ef ákæruvaldið kærði almennt út af henni, ef dómarar dæmdu almennt á þann hátt, sem gert var í umræddu máli, væri risið hér á landi sérkennilegt ríki skoðanakúgunar, sem ekki stenzt forsendur lýðræðis.
Við ættum heldur að hafa í heiðri orð Voltaires, sem sagði: “Ég fyrirlít skoðanir þínar, en er reiðubúinn að fórna lífinu fyrir rétt þinn til að halda þeim fram.”
Jónas Kristjánsson
DV