Ónýtar leyniþjónustur

Greinar

Þótt flest tilvik gruns um miltisbrand hafi reynzt án innihalds, þar á meðal á Íslandi, hafa nokkur raunveruleg tilvik fundizt í Bandaríkjunum og valdið töluverðum búsifjum í gangverki hagkerfisins. Til dæmis hefur notkun á pósti minnkað niður í brot af fyrra magni.

Bandaríkjamenn voru óviðbúnir miltisbrandinum. Þeim hefur heldur ekki tekizt að rekja hann til uppruna síns. Ekki er einu sinni vitað, hvort íslamskir hryðjuverkamenn eru að verki eða geðtruflaðir heimamenn í Bandaríkjunum. Rannsókn málsins er í molum.

Þetta er ein af ýmsum birtingarmyndum fullkomins skorts á upplýsingum, sem gætu komið í veg fyrir hryðjuverk eða rakið þau til upprunans. Yfir þúsund manns hafa verið í haldi vestanhafs án þess að nokkuð hafi komið í ljós, sem gæti auðveldað rannsókn hryðjuverka.

Osama bin Laden var alræmdur löngu fyrir hryðjuverkin 11. september. Hann hefur árum saman verið efstur á lista eftirlýstra glæpamanna. Hann hefur hvað eftir annað fullyrt, að Vesturlönd mættu búast við hryðjuverkum sinna manna. Samt hefur aldrei náðst í hann.

Í tvo mánuði hefur Osama bin Laden dvalizt óáreittur í felum sínum. Leyniþjónustur Bandaríkjanna og Breta vita ekki hvar hann er. Þær vita ekki einu sinni, hvort hann er í Afganistan. Þær eru jafnvel farnar að gera ráðstafanir til að leita að honum í Sómalíu.

Svo utangátta voru Bandaríkin um ríkisstjórn Talibana í Afganistan, að hún var ekki einu sinni á skrá Bandaríkjastjórnar um stuðningsaðila hryðjuverkahópa. Svo virðist sem leyniþjónustan hafi einfaldlega treyst því, sem leyniþjónustan í Pakistan sagði um þessa vini sína.

Leyniþjónustur Vesturlanda ættu að vita mikið um Afganistan, af því að lengi hefur verið þekkt, að landið er mesta uppspretta fíkniefna í heiminum og grefur þannig undan Vesturlöndum. Samt koma þær af fjöllum, þegar Bandaríkin þurfa upplýsingar um Afganistan.

Leyniþjónustumenn hafa ekki einu sinni lesið dagblöðin. Vitneskja þeirra um þróun og stöðu mála í Afganistan hefur ekki reynzt vera nein. Ekki hafa rætzt spár þeirra um sundrungu í liði Talibana og í ættflokki Pashtuna í kjölfar loftárása Bandaríkjanna.

Talibanar og Pashtunar sitja sem fastast í Afganistan. Þeir ráða enn 90% landsins. Fíkniefnakóngarnir í Norðurbandalaginu, sem Bandaríkin beita fyrir sig, hafa ekki þorað að hreyfa sig. Þeir hafa ekki náð borginni Mazar-il-Sarif, sem er þó nánast uppi í fanginu á þeim.

Út um þúfur hafa farið tilraunir Bandaríkjanna til að senda sérsveitir á vettvang. Fræg er orðin árás þeirra á aðetur Mullah Mohammed Omar, yfirmanns talibana. Þær urðu að flýja af vettvangi eftir harða mótspyrnu, af því að upplýsingar þeirra um aðstæður voru rangar.

Þekkingarleysið er þeim mun athyglisverðara fyrir þá sök, að Talibanar eru gamlir skjólstæðingar Bandaríkjanna eins og félagar þeirra í Pakistan. Leyniþjónustur Bandaríkjanna og Pakistans ólu þá við brjóst sér til að sigrast á hernámsliði Rússa í Afganistan árið 1996.

Versta afleiðing fáfræðinnar er, að Bandaríkin geta hvorki sótt Osama bin Laden né Mullah Mohammed Omar og kasta í staðinn í reiði sinni sprengjum á almenning, sem á enga sök á neinum hryðjuverkum. Ekki er vitað til, að neinir lykilmenn Ladens eða Omars hafi fallið.

Hinar dýru leyniþjónustur tala ekki arabisku og vita ekkert um heim Íslams. Á þessu hausti hefur greinilega komið í ljós, að þær eru gersamlega gagnslausar.

Jónas Kristjánsson

DV