Langþráður sigur felst í samkomulagi helgarinnar í Marrakesh um framkvæmd Kyoto-bókunarinnar um minni útblástur gróðurhúsalofttegunda. Einkum er það sigur fyrir ríki Evrópu, sem tókst að fá öll 160 þátttökuríkin til að fallast á sameiginlega niðurstöðu.
Undir lokin þurfti að múta Japan og einkum Rússlandi til að skrifa undir. Eftirgjafirnar fela í sér aukna þynningu Kyoto-bókunarinnar ofan á þann galla, að Bandaríkin skuli ein ríkja ekki telja sig hafa efni á að taka þátt í fjölþjóðlegu átaki um samdrátt mengunar.
Samkomulagið í Marrakesh bjargar ekki eitt sér jörðinni frá tortímingu. Það er hins vegar skref í rétta átt, felur í sér skilgreind markmið og viðurlög, ef ríki ná ekki markmiðunum. Allar ferðir byrja með einu skrefi og nú þegar hafa verið stigin þrjú skref á þessari leið.
Fyrsta skrefið var stigið í Kyoto fyrir fjórum árum, þegar leiðin var mörkuð. Annað skrefið var stigið í Bonn í sumar, þegar ríki Vestur-Evrópu sammæltust um að halda saman, þrátt fyrir andstöðu Bandaríkjanna og tilraunir þeirra til að koma í veg fyrir niðurstöðu.
Fjórða skrefið verður svo stigið á næsta ári, þegar 55 ríki með 55% mengunar heimsins á þessu sviði hafa ritað undir samninginn um gróðurhúsalofttegundir. Þá á að vera orðið tryggt, að árið 2012 verði útblástur gróðurhúsalofttegunda minni en hann var árið 1990.
Þetta nægir engan veginn til að hindra ágang sjávar og skaðlegar breytingar á veðurfari á jörðinni. En gróðurhúsaáhrifin hafa komizt í fókus mannkyns, svo að vænta má frekari aðgerða á næstu árum, þegar menn átta sig betur á vísindalegum forsendum aðgerðanna.
Ástæða til að vona, að Bandaríkin feti fyrr eða síðar á einhvern hátt í slóðina, sem önnur ríki hafa markað í Kyoto, Bonn og Marrakesh. Það skiptir umheiminn miklu, því að Bandaríkin ein bera ábyrgð á fjórðungi allrar mengunar á sviði gróðurhúsalofttegunda.
Útilokað er, að Bandaríkin geti til lengdar þótzt vera forusturíki í heiminum, þegar það tekur ekki þátt í margvíslegu heimsátaki á borð við loftslagsvarnir, alþjóðlegan stríðsglæpadómstól, jarðsprengjubann og bann við eiturefnavopnum, svo að þekktustu dæmin séu nefnd.
Það er skammgóður vermir að geta kastað sprengjum á úlfalda í Afganistan í samráði við helztu dólga heimshlutans, ef ríki treystist ekki til að vera í forustusveit friðsamlegra aðgerða um að bæta lífsskilyrði á jörðinni. Slíkt ríki vinnur alls ekki til virðingar annarra ríkja.
Samið var um, að Ísland megi vera eins konar frífarþegi í málinu. Hér má útblástur gróðurhúsalofttegunda raunar aukast um 10% á tímabilinu, auk þess sem landgræðsla gefur landinu bónuspunkta. Þetta þýðir, að álver við Reyðarfjörð fellur ekki utan leyfilegs ramma.
Ekki er virðulegt að vera frífarþegi í viðleitni mannkyns til að tryggja framtíð sína. Við höfum þó skjól af, að samkomulag skuli vera um okkur sem ómaga. Bandaríkjamenn geta hins vegar ekki skotið sér á bak við einhliða yfirlýsingu þeirra um, að þeir hafi ekki ráð á aðild.
Aðildarríki Evrópusambandsins hafa mestan sóma af máli þessu. Þeim tókst að halda saman gegnum þykkt og þunnt og að knýja önnur lykilríki til undirskriftar. Þar með hefur Evrópa tekið forustu í baráttu mannkyns gegn hægfara hnignun lífsgæða á jarðarkringlunni.
Lofthernaður á eyðimörkum mun ekki ráða forustuhlutverki ríkja og ríkjasambanda á nýrri öld, heldur siðferðisþrek til jákvæðra athafna í þágu mannkyns.
Jónas Kristjánsson
DV