Okrið er eðlilegt

Greinar

Ein af allra stærstu keðjum smásöluverzlunar í landinu auglýsir efst á forsíðu bæklinga sinna, að hún fylgist látlaust með verði keppinautanna. Þetta er eðlilegt viðhorf á frjálsum markaði og segir okkur, að verð á vöru er afstætt og fer eftir ytri aðstæðum í umhverfi fyrirtækja.

Markaðslögmálin leiða til verðlækkana, þegar mörg fyrirtæki keppa og reyna hvert um sig að ná sem mestri markaðshlutdeild. Við þær aðstæður taka einstök fyrirtæki sig út úr hópnum og lækka verð, en hin fylgja í humátt á eftir til að verja markaðshlutdeild sína.

Á þessu stigi lækkar verð jafnt og þétt, verðbólga dregst saman og hagur viðskiptavina batnar. Þannig var ástandið í smásöluverzluninni, þegar Hagkaup var að ryðja sér til rúms og síðar, þegar Bónus var að ryðja sér til rúms. Þá höfðu keðjurnar forgöngu um að lækka verð.

Þegar samkeppnin gengur of nærri efnahag fyrirtækjanna, fara þau að kaupa hvert annað eða sameinast á annan hátt, fyrst til að ná hagkvæmni stærðarinnar og síðan til að draga úr samkeppni á markaði. Þannig breytist samkeppni í fákeppni og fákeppni í fáokun.

Markaðslögmálin leiða til verðhækkana, þegar þetta ferli er komið á stig fáokunar. Þá sitja tvö eða þrjú fyrirtæki eftir með þrjá fjórðu hluta markaðarins og ráða verðlagi með beinu eða óbeinu samráði sín á milli. Slíkt ástand ríkir í mörgum þáttum verzlunar á Íslandi.

Stjórnendur grænmetisverzlunar urðu að hittast í Öskjuhlíð til að hafa samráð um verð. Auðveldara er þetta hjá olíufélögunum, þar sem hugir forstjóranna eru svo samstilltir, að þeir ákveða allir sömu hækkun á sama andartaki, án þess að þurfa að vita hver af öðrum.

Þannig ríkir hér á landi fáokun í smásöluverzlun, grænmetisheildsölu, búvöruvinnslu, olíuverzlun, bifreiðatryggingum, farþegaflugi, vöruflugi, siglingum og ekki sízt í bönkum. Á öllum þessum sviðum ráða tvö eða þrjú fyrirtæki yfir þremur fjórðu hlutum markaðarins.

Á þessu stigi hækkar verð jafnt og þétt, verðbólga eykst og hagur viðskiptavina versnar. Nýjasta dæmið um þetta er, að olíufélögin hafa notað tíðar sveiflur á olíuverði til að klípa meira til sín af kökunni við hverja sveiflu. Fólk kveinar og kvartar og talar um okur á benzíni.

Eins og annað okur er þetta okur olíufélaganna eðlilegur þáttur í markaðshagkerfinu, þegar stigi fáokunar er náð. Lítið og tiltölulega lokað hagkerfi eins og Ísland getur ekki brotizt út úr þessari gildru markaðshagkerfisins nema að fá erlend fyrirtæki til að hlaupa í skarðið.

Því miður eru Íslendingar upp til hópa svo þýlyndir og tryggir innlendum kvölurum sínum, að tilraunir erlendra fyrirtækja til að brjótast inn á markað hafa lítinn árangur borið. Þannig hefur ekki tekizt að rjúfa fáokun bílatrygginga, olíuverzlunar og farþegaflugs.

Eftir þá reynslu bíða erlend fyrirtæki ekki í röðum eftir að komast inn á þröngan markað Íslands. Ef stjórnvöld vilja, að markaðslögmálin styðji fremur en hamli gegn viðleitni þeirra til að minnka verðbólgu og bæta hag almennings, verða þau að opna hagkerfið betur.

Ýmislegt má gera í lögum, reglugerðum og stjórnsýslu til að auðvelda erlendum fyrirtækjum að hefja starfsemi hér á landi og taka upp samkeppni við innlend fyrirtæki, sem eru komin á svo hátt stig fáokunar, að þau fylgjast látlaust með verði keppinautanna upp á við.

Okrið mun samt áfram blómstra sem eðlileg afleiðing þess, að stór hluti þjóðarinnar vill fremur skipta við okrarana en að reyna viðskipti við nýja aðila.

Jónas Kristjánsson

DV