Fyrsta stríð nýrrar aldar

Greinar

Norðurbandalagið í Afganistan hefur reynzt Bandaríkjunum erfiður bandamaður í hefndarstríði þeirra gegn talibönum og liði Osama bin Ladens. Það neitar að láta segja sér fyrir verkum og reynir að hefta svigrúm vestrænna hermanna, sem komnir eru til landsins.

Í Afganistan hefur ógnaröld fylgt landvinningum Norðurbandalagsins í kjölfar loftárása Bandaríkjanna, svo sem búizt hafði verið við. Það voru einmitt hryðjuverk þess, sem ollu því, að landsmenn urðu fegnir, þegar talibanar hrifsuðu til sín völdin í landinu á sínum tíma.

Ferlið í Afganistan sýnir mátt og máttleysi bandarískra yfirburða í hernaði. Engin ríki hafa neitt, sem nálgast bandaríska tækni við loftárásir. Það hafði raunar áður komið í ljós í átökum á Balkanskaga, að Evrópa hefur varanlega helzt úr lest framfara í lofthernaði.

Á móti þessu kemur, að Bandaríkin vilja ekki fyrir nokkurn mun lenda í návígi við andstæðinga sína. Þau vilja vera skýjum ofar og láta bandamenn hvers tíma um átök á landi niðri. Þetta kom greinilega fram á Balkanskaga og hefur verið staðfest í Afganistan.

Þetta takmarkar áhrif Bandaríkjanna. Bandamenn á jörðu niðri hafa sínar eigin forsendur, sem þurfa ekki að fara saman við bandarískar forsendur. Þess vegna réð Evrópa miklu í Balkanstríðunum og þess vegna hefur Norðurbandalagið ráðið miklu í núverandi stríði.

Stríð Bandaríkjanna í Afganistan er fyrst og fremst hefnd, sem Osama bin Laden og talibanar eiga skilið. Það er engin frelsun þjóðar úr ánauð hryðjuverkamanna, bara alþekkt skipti á harðstjórum. Í stað trúarofstækismanna suðursins koma eiturlyfjabarónar norðursins.

Stríð Bandaríkjanna í Afganistan er ekki heldur nein marktæk aðgerð gegn hryðjuverkum í heiminum. Það er einmitt eðli hinna valddreifðu samtaka, sem Osama bin Laden hefur ræktað, að þau þrífast um allan heim, hvort sem þau eiga áfram griðastað í Afganistan eða ekki.

Raunar hefur stríðið magnað hryðjuverk í heiminum. Glæpastjórnir heimsins hafa notað tækifærið til að efla kúgun minnihlutahópa undir því yfirskini, að þau séu að taka þátt í stríðinu gegn hryðjuverkum. Þannig hefur Kínastjórn magnað ofbeldið í Tíbet og Sinkíang.

Mannréttindi eru helzta fórnardýr framvindunnar. Í Bandaríkjunum og Bretlandi er verið að setja lög, sem takmarka borgaraleg réttindi. Fyrrum forusturíki mannréttinda munu hér eftir ekki standast samjöfnuð við Evrópu, sem nýlega hefur sett sér mannréttindasáttmála.

Þegar sigri verður fagnað yfir Osama bin Laden og talibönum, þurfum við í leiðinni að átta okkur á takmörkum sigursins. Hann mun ekki hindra frekari hryðjuverk, hvorki á Vesturlöndum né í þriðja heiminum, og hann mun síður en svo færa okkur nær betri heimi.

Stríðið í Afganistan er fyrsta stríð nýrrar aldar. Hátæknivætt herveldi reynir með loftárásum að fjarstýra stríði milli hryðjuverkahópa í þriðja heiminum. Önnur atrenna af slíku tagi kann að verða reynd fyrr en varir í nágrannaríkinu Írak, ef sæmilega gengur í Afganistan.

Sérstaða Bandaríkjanna og einstefna í alþjóðamálum hefur magnazt að undanförnu. Óhjákvæmilegt er, að sú framvinda leiði til árekstra innan hins vestræna heims, því að önnur sjónarmið ríkja á meginlandi Evrópu, þar sem mikil áherzla er lögð á fjölþjóðlegt samstarf.

Þegar upp verður staðið, mun stríðið í Afganistan ekki reynast hafa þjappað Vesturlöndum saman, heldur opnað rifur, sem síðar verður erfitt að rimpa saman.

Jónas Kristjánsson

DV